144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

rannsóknarklasar á sviði taugavísinda og taugahrörnunarsjúkdóma.

24. mál
[19:07]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil alls ekki að ég misskiljist. Ég er ekki á móti því að þetta sé rannsakað, alls ekki. Ég er bara að segja að það sé ekki okkar pólitíkusanna að ákveða það.

Auðvitað eigum við að vekja athygli á málum, tala um þau og setja lög. En er þá ætlun þingmannsins að koma til dæmis fram í fjárlagafrumvarpi með sérstaka úthlutun í þetta? Til hvers eru pólitíkusar? Er það okkar að fara inn í fræðasamfélagið og segja hvað sé mest áríðandi þar? Við getum haft okkar skoðun og við segjum hana hér. En hvað ætlar þingmaðurinn að gera? Hvað þýðir þessi tillaga annað en það, sem ég er hjartanlega sammála, að við setjum nóg af peningum í aðgerðaáætlunina? Setjum nóg af peningum í rannsóknir og vísindi, en látum aðra um að deila þeim út í hinar ýmsu vísindagreinar.