144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

þátttaka íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi.

9. mál
[15:44]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér er ekki umhugað um að Norðmenn hefji olíuvinnslu á Lófóten-svæðinu. Þvert á móti er ég fullur skilnings á því að svæði eins og það, sem er mikilvægt uppeldissvæði fiskstofna eins og þorsks, sé undanskilið og ég skil vel Norðmenn sem hafa barist gegn því.

Það voru hins vegar allt önnur rök sem tengdust Jan Mayen-svæðinu. Þar er um að ræða samvinnu við Íslendinga. Við höfum gert tvo alþjóðlega samninga ef ekki þrjá við Norðmenn sem varða einmitt samvinnu um olíuleit og raunar vinnslu á því svæði þannig að ég tel að það séu engir diplómatískir annmarkar á því að Íslendingar láti í ljósi skoðun sína á því hvað kynni að vera þessari samvinnu fyrir bestu. Sannarlega er það þannig að það var í þágu íslenskra hagsmuna að Norðmenn skildu á milli annars vegar andstöðu sinnar við vinnslu og leit á Lófóten-svæðinu og hins vegar á Drekasvæðinu, tvö algerlega gjörólík svæði.

Einnig held ég að ég megi segja að umræður hafi orðið um það í norska þinginu að æskilegt væri að menn endurskoðuðu afstöðuna til Drekasvæðisins. Það var að vísu í þann mund sem það rann upp fyrir mönnum að einhvers konar breytingar kynnu að vera fram undan á sviði olíumála heimsins vegna mikillar framþróunar í því að framleiða náttúrulegt gas með nýjum aðferðum. Ég tel að það sé ekkert sem segir neitt á móti því að Íslendingar, í krafti skuldbindinga og samninga sem þeir hafa við Norðmenn, ræði þetta mál.

Í annan stað vil ég bara segja — af því að önnur sviðsmyndin sem hæstv. ráðherra taldi hér upp, sem gæti leitt til þátttöku Íslands, væri sú ef fyrirtækið drægi sig út úr einu þeirra sérleyfa sem nú er, þá kynnu Íslendingar að velta því fyrir sér — að ég tek það alveg gilt, sem hæstv. ráðherra segir, að ekkert slíkt sé á döfinni og teldi það mikið óráð ef Íslendingar tækju nokkru sinni slíka áhættu.