144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

þátttaka íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi.

9. mál
[15:47]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni. Ég held að það fyrirkomulag sem við sem þjóð eða stjórnvöld völdum í þessum efnum sé afar skynsamlegt. Þetta eru gríðarlegar fjárfestingar og eins og þingmaðurinn nefndi mikil áhætta í þessu fólgin. Ég tel að það sé afar farsælt hvernig búið er að koma málum fyrir og til að mynda er sá samningur sem hv. þingmaður nefndi varðandi Jan Mayen-svæðið við Noreg, ég leyfi mér að segja einn besti ef ekki besti alþjóðasamningur sem Ísland hefur gert um nokkurt mál.

Ég nefndi þetta sem aðra sviðsmynd vegna þess að það er möguleiki og ég tel rétt að nefna alla þá möguleika. Mér hefur stundum fundist í umræðunni vera ákveðinn misskilningur, að með því að stofna ríkisolíufélag, menn rugla því við vinnslufélag og þegar við tölum um norsk fordæmi rugla menn því við norska fyrirtækið Statoil sem er vinnslufyrirtæki. Ég vildi því skýra nákvæmlega hvað þyrfti til til þess að þetta félag kæmist á laggirnar.

Varðandi Noreg og Jan Mayen vek ég athygli á því að þrátt fyrir samkomulag núverandi ríkisstjórnarflokka ákváðu þeir að taka þátt í Drekaútboðinu, þriðja leyfinu hjá okkur, þrátt fyrir að það væri eftir að núverandi ríkisstjórn tók við. Ég held að skuldbinding Norðmanna gagnvart því svæði sé algerlega klár. Það er á þeirra forræði að meta hvenær þeir fara af stað sín megin en á þeim er ekki að heyra neina stefnubreytingu hvað varðar fiskveiðarnar eða það svæði sem er Íslandsmegin.