144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

stofnun samþykkisskrár.

22. mál
[17:28]
Horfa

Elín Hirst (S):

Herra forseti. Mér sýnist það koma fram í greinargerðinni með málinu að það mál sem hér er til umfjöllunar sé komið til út af frumvarpinu sem var lagt fram á síðasta þingi um ætlað samþykki til líffæragjafar. Þá höfðum við þingmenn í velferðarnefnd þetta mál til umfjöllunar og spunnust út frá því miklar umræður því að þetta er mál sem þarf að ræða í þaula. Þetta er ekki einfalt mál.

Það sem er gott við það mál sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kemur fram með núna er að með því er ráðin bót á því að hvergi í landinu skuli vera til skrá yfir það hverjir vilja gefa líffæri. Það er í raun ekki heldur nógu vel kynnt af hálfu heilbrigðisyfirvalda hvernig fólk snýr sér ef það hefur áhuga á að leggja sitt af mörkum inn í þennan mikilvæga banka sem er líffæragjafabanki.

Þetta er nokkuð sem við þurfum að ráða bót á vegna þess að ég er ein þeirra sem voru ekki sammála því að við ættum að nota ætlað samþykki og að það væri lausnin í þessu en ég taldi hins vegar mjög mikilvægt — og það sé ég að kemur fram í þessu máli — að það yrði haldið utan um þetta og það væri í góðum og gegnum farvegi, þ.e. hvaða líffæri eru til ráðstöfunar þegar slíkar aðstæður koma upp. Í raun finnst mér óskiljanlegt að við skulum á tölvuöld ekki vera komin lengra í þeim málum en raun ber vitni.