144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Landlæknisembættið er með sérfræðinga á sviði heilbrigðis, en ekki er þar með sagt að við eigum að kvitta undir allt sem þau segja um það hvaða áhrif tiltekin stefnumótun muni hafa. Það er ekki það sem þau sem þar starfa gera, þau sjá um að lækna þá sjúku, gera þar kraftaverk á hverjum degi og það er gott og blessað. Vissulega tala þau um að áfengi sé skaðlegt, sem það er. Ég sagði það hér í fyrra andsvari mínu. Áfengi er dóp. Það er ekkert minna dóp en annað dóp nema það er löglegt, sem betur fer.

Þegar við hins vegar lítum á það hvaða áhrif stefnumótun hefur getum við ekki einfaldlega talað um skaðsemi fyrirbærisins sem við erum að reyna að takmarka skaðsemina af. Við hljótum að vilja skoða hlutina í stærra samhengi. Þegar kemur að áfengi þá set ég þá skoðun fram að neyslumynstrið skipti gríðarlega miklu máli. Það skiptir máli hvenær menn neyta áfengis, af hvaða ástæðu menn neyta áfengis — er maður að drekka vín með kjötinu eða er maður að drekkja sorgum sínum? — undir hvaða aðstæðum maður gerir það og síðast en ekki síst hversu gamall maður er þegar maður byrjar að drekka. Svo auðvitað hversu oft og hversu mikið. Allt eru þetta þættir (Forseti hringir.) í þeirri jöfnu hversu skaðlegt áfengi er. Hér heyri ég menn eingöngu tala um magnið sem (Forseti hringir.) er bara einn af þessum þáttum.

Því (Forseti hringir.) spyr ég hv. þingmann: Telur hann ekki að (Forseti hringir.) neyslumynstrið, og þeir þættir sem ég nefndi áður, skipti líka höfuðmáli (Forseti hringir.) þegar kemur að vandamálunum sem eru afleiðingar áfengisneyslu?