144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum alveg í sama liðinu þegar kemur að ölvunarakstri. Það er nokkuð sem við erum alltaf að vinna gegn og ég held að allir séu sammála um og hlynntir því að taka eigi á með hörku, enda var hér þingmál á síðasta þingi, ef ég man rétt, um að bæta úr þeim málum.

Hv. þingmaður nefnir einmitt bjórinn. Bjórinn var lögleiddur 1989. Það er alltaf gaman að hneyksla útlendinga með þeirri staðreynd. Ég hef aldrei heyrt síðan þá nokkurn mann stinga upp á því að bjórinn verði aftur bannaður. Þrátt fyrir að það sé óumdeilt að heildarmagn áfengisneyslu hafi aukist virðist vera samhugur um það að áfengismenningin hafi batnað. Þó er ég sammála hv. þingmanni um að maður tekur vissulega eftir fylliríislátunum á börunum þegar maður gengur til dæmis um miðbæinn eða annars staðar þar sem eru margir barir. Þess vegna bendi ég á og inni eftir svörum: Er ekki skömminni skárra að hafa meiri neyslu inni á heimilum með matnum eða fyrir framan sjónvarpið, einn, tvo á kvöldi, en hafa þá fylliríismenningu sem viðgengst hér á Íslandi?