144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[14:02]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Fyrsta spurning mín er eiginlega hvaða knýjandi þörf valdi því að enn og aftur telji Sjálfstæðisflokkurinn þetta vera svona brýnt mál að það þurfi að koma fram svo snemma þings. Hér hefur því verið lýst að sölu áfengis sé ágætlega háttað eins og er og aukist líklega ekki mikið í verslunum. Sú skoðun kom fram rétt áðan, en þetta eigi bara ekki heima hjá ríkinu. Það er rökstuðningurinn. Sá rökstuðningur er afar dapurlegur, finnst mér, að vilja flytja þessa starfsemi sem er talin hafa gott gildi, mikið forvarnagildi og vera eitt það besta til þess að sporna gegn aukinni neyslu.

Þetta hefur ekkert með velferð barna að gera. Þetta snýst um viðskiptahagsmuni fyrst og fremst og ekkert annað. Það má vel vera að einhverjum finnist það vera forgangsmál að viðskiptahagsmunir hinnar almennu verslunar sé ofar á blaði en lýðheilsusjónarmið og að einhverjir telji sér trú um að það geti haldist í hendur eins og birtist í þessu frumvarpi, sem ég er mjög ósammála.

Það er vert að vekja athygli á afar góðu plaggi sem heitir Áfengi — engin venjuleg neysluvara sem er samantekt úr bók og kemur ágætlega inn á leiðir og margt annað sem var skoðað í þessu samhengi. Hér var vitnað í Norðurlandaráð í gær, heilmikla vinnu þess í langan tíma þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að skynsamlegasta leiðin væri meðal annars að hafa áfengi í ríkissölu. Það segir að munurinn á góðri og slæmri áfengisstefnu sé ekki óáþreifanleg stærð heldur oft spurning um líf eða dauða.

Af því að við höfum rætt töluvert mikið um forvarnir þá erum við nú að skera niður í framhaldsskólum landsins. Þar hafa heimsóknir forvarnafulltrúa ítrekað fallið niður vegna þess að það eru ekki til fjármunir. Ég var í slíku starfi. Þetta var mjög gjarnan þannig að þegar við vorum að hittast þá var fólk í 10%–15% hlutfalli, þetta var svona hliðargrein, vegna þess að það voru ekki til peningar. Og ekki verða þeir til núna. Það hljómar svolítið sérkennilega að nú eigi að fara að setja fullt af peningum í lýðheilsusjóð sem á svo að koma til móts við þetta.

Það er líka vert að geta þess, þótt okkur finnist það dapurlegt, sem kemur fram í plagginu sem ég nefndi áðan, að það sem ber langmestan árangur er aldurstakmörkunin við áfengiskaup, það er ríkissalan, takmarkanir á sölutímum og dögum, takmarkaður fjöldi sölustaða, áfengisskattar o.s.frv. Þær forvarnir sem við erum þó að reyna að berjast með og teljum auðvitað að við þurfum að viðhalda ná því miður ekki eins mikið til unga fólksins og við gjarnan vildum, en þær skora hæst. Þetta vill Sjálfstæðisflokkurinn afnema. Það er óheillaspor.

Við þurfum að spyrja okkur að því í grunninn hvort þetta sé afturför þegar við hugsum um að vernda börnin okkar. Er þá afturför að fara þessa leið? Ég held það.

Ég held að við getum ekki hunsað það sem fram hefur komið eins og var ábyggilega minnst á hér fyrir hádegi. Hildigunnur Ólafsdóttir afbrotafræðingur var með erindi um daginn þar sem hún fjallaði um aukið aðgengi að áfengi og að það mundi að öllum líkindum verða með tilkomu þess að hin almenna verslun fengi að selja áfengi. Hún tók dæmi frá mörgum löndum og rannsóknir sem sýndu fram á að áfengisneysla ykist og mest auðvitað hjá þeim sem ættu við vandkvæði að etja. Það er líka þekkt að unga fólkið reynir enn frekar að sækja sér áfengi þegar aðgengi eykst í nærumhverfinu.

Svo má ekki horfa fram hjá því að þetta er heilbrigðisvandi eins og hér hefur komið fram. Það er ekki bara vegna ofdrykkju því að eins og hér hefur líka komið fram fara margir ágætlega með vín. Það eru mjög mörg önnur félagsleg og heilbrigðisleg vandamál sem fylgja áfengisneyslu burt séð frá ofnotkun.

Ég stend fastar en fótunum á því að núverandi fyrirkomulag er gott. Þjónustan er trygg og góð. Hér kom fram að ÁTVR skorar hátt í ánægjuvoginni. Þess vegna spyr ég enn og aftur: Hver er hin knýjandi þörf?

Við eigum sem þingmenn og foreldrar að hugsa um velferð ungmenna. Þess vegna finnst mér mjög skrítið, eins og ég sagði, að á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir því að draga úr fjármunum til framhaldsskóla sé hann tilbúinn að velta þessu út í samfélagið. Þetta hangir saman, þ.e. stefna í áfengismálum og stefna í uppeldismálum, skólar eru uppeldismál. Mér finnst þetta mjög sérkennileg forgangsröð.

Mér finnst barnalegt að telja sér trú um að einkabisnessinn reyni ekki að auglýsa vöruna með einhverjum hætti. Við erum nú þegar í vandræðum og það verður bara að segjast eins og er að stjórnvöld eru óttalega aum og sjá í gegnum fingur sér með áfengisauglýsingar sem dynja á skjánum undir merkjum einhvers sem heitir „léttöl“. Við vitum þetta, en það virðist vera rosalega erfitt að takast á við vandann. Og að halda því fram að þegar þetta er komið út í verslanir vilji innflytjendur og aðrir sem eru að koma þessari vöru inn í verslanirnar ekki auglýsa vöruna enn frekar — mér finnst það mjög barnalegt.

Það hafa á bilinu 600–700 kærur borist vegna brots á banni við áfengisauglýsingum frá foreldrasamtökum sem hafa barist gegn þessu. Það er bara pínulítill hluti því að eins og ég segi þá erum við hér inni alveg meðvituð um þetta.

Mér finnst þetta vera afar sérstakt, fyrir utan að halda því fram að verslunin komi ekki til með að leggja meira en 18% á vöruna eins og gert er í dag, 12–18%. Eru þingmennirnir sem flytja þetta mál svo sannfærðir í hjarta sínu um það að vöruúrvalið verði óbreytt, að álagningin verði jafnvel minni eða alla vega ekki meiri í ljósi þess hvernig verslunin hegðar sér í dag? Ég er það ekki.

Það er líka opinbert að við erum búin að vera í brasi með tóbakssölu í verslunum. Við höfum sem betur fer gengið skrefinu lengra — ég meina, tóbak er ekki sýnilegt og það er merkt í bak og fyrir. Það er samt búið að gera kannanir á því hvort hægt sé að kaupa það undir lögaldri og það er allt of mikið um það.

Svo er annað mál þaðan sem ég kem af landsbyggðinni að þar er ein matvöruverslun, ekki ÁTVR, en ÁTVR er bæði á Siglufirði og Dalvík. Ég bý þarna á milli og mér finnst ekkert tiltökumál þó að ég þurfi að skreppa 30 km fram og til baka, þ.e. 15 km hvora leið, ef mig vantar áfengi. Það er eflaust erfitt fyrir einhverja, ég er ekkert að gera lítið úr því og fólk þarf að fara mislangar leiðir. (Gripið fram í: Pósturinn.) Svo er það pósturinn. Hann fer nú suður til Reykjavíkur í flokkun og norður aftur. Þetta er ekki vandamál.

Ég sé ekki fyrir mér að litla Samkaupsverslunin heima hjá mér verði með gríðarlegt hillupláss fyrir vörur eins og áfengi. Af hverju ætti hún að vera með það nema til að græða? Þá er spurningin: Er það markmiðið? Eða á bara að velja einhverjar tilteknar tegundir sem líklegastar eru til vinsælda? Það má ekki gleyma því að mjög ungt fólk er að vinna í þessum verslunum, oft skólafólk, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur líka víða um land, sem er jafnvel ekki orðið 18 ára. Það er vegna þess að verslanirnar hafa ekki kost á öðru. Hvað gerum við þá?

Það kom margt fram í ræðu flutningsmanns hér í gær sem ég hefði viljað fara yfir en mig langar að fara með hugleiðingu sem ungur maður í lýðheilsunámi skrifaði, með leyfi forseta:

„Til að byrja með vil ég að allir ímyndi sér að nú væri nýbúið að uppgötva áfengi og almenningur vissi ekkert hvað það væri. Hópur sérfræðinga kemur fram á sjónarsviðið og segir frá efni sem þeir hafa fundið upp, áfengi. Þetta er efni sem hefur áhrif á heilann á þann veg að maður tekur ákvarðanir án þess að hugsa eins mikið um afleiðingar þeirra. Efnið lætur mann gera minna úthugsaða hluti, hluti sem maður myndi jafnvel aldrei gera undir venjulegum kringumstæðum. Sé miklu magni neytt á stuttum tíma verður manni flökurt, höfuðverkur fylgir, svimi og fleiri óþægindi sem geta endað með uppköstum, svo ekki sé talað um heilsuna daginn eftir. Til langs tíma getur þetta nýja efni skemmt lifrina, vöðvakerfið verður lélegra, hjarta- og æðakerfið verður óskilvirkara og svo mætti áfram telja.

Hver væru viðbrögð almennings? Hver væri þín skoðun á þessu nýja efni?“

Auðvitað er þetta mjög dökk mynd af neyslu áfengis og flestir nota það sem betur fer bara til að hafa gaman, eins og við vitum. En hvernig værum við samt stödd ef við hefðum enga hugmynd um áfengi en fengjum samt að vita þetta? Hvað mundum við þá gera? Hvernig mundum við vilja hegða sölumálum okkar?

Ég gat ekki annað en staldrað við eitt af því sem flutningsmaður sagði hér í gær þegar hann talaði um að eftirlitið mundi sjálfkrafa aukast og að fjölmiðlar mundu fylgja því fast eftir að reglum yrði fylgt. Hvaða vegferð er það? Eiga fjölmiðlar allt í einu að hafa eftirlit með sölu brennivíns? Hver slags málflutningur er þetta? Allir græða en álagningin fer ekki til ríkisins heldur til kaupmanna. Það var eiginlega boðskapurinn, fannst mér, hér í gær.

Virðulegi forseti. Við vitum alveg að lýðheilsumál hafa verið ofarlega í umræðunni hér og eiga að vera það. Þetta er ótrúlega mikið þannig mál en ekki spurning um sölu. Það er líka blekking að úrvalið aukist. Við skulum ekki gleyma því að úrvalið í verslunum ÁTVR er í kringum 2 þús. tegundir. Það er alveg sama í hvaða verslun ÁTVR á landinu þú ferð, ef það er ekki til þá panta þeir það fyrir þig þér að kostnaðarlausu og þú þarft bara að sækja það, færð meira að segja að vita þegar það er komið. Sjáið þið fyrir ykkur, flutningsmenn, hvort einkaaðilinn mundi til dæmis þjónusta ykkur þannig? Finnst ykkur kannski allt í lagi að vöruúrvalið verði minna? Finnst ykkur allt í lagi að hunsa þær rannsóknir sem komið hafa fram og sýna fram á svo ekki verður um villst að eftir því sem aðgengi er meira þeim mun meira eykst neysla (Forseti hringir.) barna og unglinga?