144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

framtíð umhverfisráðuneytisins.

[14:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ákveðin breyting á ýmsu fyrirkomulagi ólíkra málaflokka hefur verið til allítarlegrar skoðunar, eins og sameining stofnana sem menn þekkja. Sumar breytingar eru farnar af stað, samanber tilflutningur verkefna eins og menn þekkja líka, jafnvel höfuðstöðva. Þessu er hvergi nærri lokið. Ég á von á því að það komi fleira frá hæstv. ríkisstjórn í þá áttina, líka er varðar umhverfismál eins og aðra málaflokka.

Það er auðvitað fráleitt að við núverandi aðstæður sé hægt að leggja niður ráðuneyti sem fer með jafn víðfeðma málaflokka og umhverfisráðuneytið. Við erum ekki nærri komin á þá stöð í lífinu, hvorki hv. þingmaður né sá sem hér stendur eða samfélagið í heild sinni, að umhverfismál eða jafnréttismál, hvað þá byggðamál séu komin inn í samþætta hugsun okkar þegar við afgreiðum mál almennt séð. Fyrir þann tíma er augljóst að við verðum að hafa málsvara fyrir hvern málaflokk fyrir sig eins og við erum með. (Forseti hringir.) Það væri óskastaða að við næðum þeirri hugsun að mál sem eiga að vera þverfagleg og fara þarf í (Forseti hringir.) gegnum hvert einasta málefni sem við fjöllum um væru til (Forseti hringir.) umfjöllunar á sama tíma.