144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:51]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Varðandi seinni spurningarnar, hvort þessar þrjár virkjanir hangi saman sem ein heild eða hvort hægt sé að byrja á einni og hvort virkjunaraðilinn sé sáttur við það. Ég get ekki svarað hvernig því er nákvæmlega háttað og tel eðlilegt að nefndir þingsins leitist við að fá svör við því frá viðkomandi aðilum.

Í þessari vinnu, eins og hv. þingmaður benti á og ég kom aðeins inn á í máli mínu, eyddi verkefnisstjórnin nokkrum tíma í að velta fyrir sér verklagi þrátt fyrir nokkuð skýr fyrirmæli í lögum. Það varð til þess að við ákváðum að skýra það betur með því að setja á laggirnar starfshóp með verkefnisstjórninni til að setja verklagsreglur svo að það lægi fyrir eftir hvaða verklagi menn skyldu fara og einnig vegna þess að það kom upp talsverður ágreiningur þegar Orkustofnun kynnti sína kosti um hvaða reglugerð hún fylgdi, sem sagt eftir hverju Orkustofnun færi þegar hún setti fram sína kosti. Við fórum af stað með þá vinnu í kjölfarið á þessum vandræðagangi hjá verkefnisstjórninni, þ.e. hvernig hún ætti að vinna og hvar hún gæti fengið peninga fyrir faghópa, sem ég verð að segja að ég varð nokkuð undrandi á að sjá í skýrslu verkefnisstjórnarinnar.

Faghópar hafa hins vegar verið skipaðir og hafa hafið störf. Hversu langt vinnan er komin þekki ég ekki til hlítar. Það er einnig atriði sem ég býst við að nefnd þingsins geti óskað eftir að fá upplýsingar um frá viðkomandi aðilum þegar þar að kemur.