144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

útkoma landsbyggðarinnar í fjárlagafrumvarpinu.

[10:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um stöðu byggðamála almennt og útkomu eða nær væri kannski að segja útreið þess málaflokks í fjárlagafrumvarpinu ef byggðagleraugun eru sett á nefið augnablik. Nú er hæstv. forsætisráðherra að sönnu hvorki ráðherra byggðamála né fjármálaráðherra en hefð er fyrir því, samanber það að hann er eða á að vera verkstjóri í þessari ríkisstjórn, að beina málefnum sem varða mörg ráðuneyti og skarast milli ráðuneyta til hæstv. forsætisráðherra sem slíks.

Spurningin er: Hefur hæstv. forsætisráðherra kynnt sér eða látið taka saman hvernig útkoman er séð af sjónarhóli landsbyggðanna hvað varðar sóknaráætlanir þar sem heilar 15 milljónir eru ætlaðar til þess verkefnis í fjárlögum, væntanlega til að halda því í einhvers konar öndunarvél? Ég hef þó heyrt hæstv. forsætisráðherra tala mjög vel um það verklag á aðalfundum samtaka sveitarfélaga í okkar kjördæmi.

Í öðru lagi: Hefur hæstv. forsætisráðherra kynnt sér eða látið taka saman hvernig minni eða minnstu framhaldsskólarnir koma út úr fjárlagafrumvarpinu þar sem mikils kvíða gætir? Eðli málsins samkvæmt eru minni eða minnstu framhaldsskólarnir yfirleitt á landsbyggðinni.

Í þriðja lagi má nefna innanlandsflugið og flug til afskekktra staða með ríkisstuðningi sem í hvoru tveggja tilvikinu er skorið niður. Þekkja menn þó hversu erfitt uppdráttar sá samgöngumáti á, svo bráðnauðsynlegur sem hann er fyrir viðkomandi aðila.

Í fjórða lagi hlýt ég að nefna vegamálin og alveg sérstaklega ástandið á héraðsvegum og tengivegum sem liggja víða í dölum og uppsveitum þar sem verður að horfast í augu við að er að skapast hreint neyðarástand. Það er vissulega ekki nýtilkomið og það hefur verið lagt allt of lítið til þeirra mála um langt árabil. Við verðum samt að horfast í augu við aðstæðurnar eins og þær eru. (Forseti hringir.) Í þessum liðum og fjölmörgum fleirum virðist landsbyggðin (Forseti hringir.) fá ákaflega harkalega útreið í frumvarpinu. Er hæstv. forsætisráðherra tilbúinn til að gera á þessu úttekt?