144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:03]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru vissulega mörg verðug verkefni sem okkur langar að auka fjármuni til. Þess vegna held ég að við eigum að nýta allar leiðir til að hagræða til að koma fjármunum í mikilvægustu verkefnin.

Hv. þingmaður talaði í ræðu sinni um að ég hefði ekki minnst á neinar rannsóknir og hv. þingmaður sagðist hafa tekið þátt í allri umræðunni eða hlustað á hana. Ég vitnaði í nákvæmlega sömu rannsóknir og aðrir hv. þingmenn hafa farið með hér og bent á þær tölur sem sumar rannsóknir greina frá en margir hv. þingmenn hafa algerlega sleppt að nefna. Má þar nefna rannsókn frá Bretlandi þar sem var fullyrt að aukið aðgengi yki heildarneysluna en í sömu rannsókn kom fram að unglingadrykkja hefði dregist verulega saman og slysum vegna ölvunaraksturs fækkað um 48% — í nákvæmlega sömu rannsókn.

Ég hef nefnt hér rannsókn í meistaraverkefni við Stokkhólmsháskóla sem sýnir að hér á Íslandi hefur unglingadrykkja dregist saman í litlum bæjarfélögum úti á landi þar sem sett hefur verið á fót áfengisverslun. Þar hefur dregið úr drykkju.

Ég hef bent á að landlæknir er með nokkrar úttektir á neyslu ýmissa vímuefna á heimasíðu sinni. Þar kemur fram að árangur hafi náðst óháð sölufyrirkomulagi. Þar er góðu forvarnastarfi þakkaður árangurinn. Vissulega segja margir að forvarnastarf sem er keypt í gegnum auglýsingastofur skili ekki árangri en forvarnastarf sem forvarnafulltrúar sinna, eins og hv. þingmaður hefur gert, innan skólanna, innan grunnskólanna og í samstarfi við heimili og samtök skilar árangri.