144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

staða barnaverndar í landinu.

[17:35]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og öllum þeim sem hafa tekið til máls undir þessum lið. Ég tek undir með hv. þm. Björt Ólafsdóttur, það er sárt að hugsa til þess að þrátt fyrir lög og sáttmála skuli málum vera ábótavant. Barnavernd er okkur mikilvæg og stöðu barna þarf að meta reglulega og leita frekari úrræða þar sem þeirra er þörf.

Eins og hérna hefur komið fram er líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi, hegðunarvandamál og staða barna alltaf í endurskoðun hjá þeim stofnunum sem vinna að þessum málum og svo ætti að sjálfsögðu að vera hjá okkur líka. Þar á hafa orðið breytingar, í staðinn fyrir að einblína aðeins á vandamálið þegar það er orðið hefur líka verið horft til upphafs vandans og lausna fyrr í ferlinu eins og meðferð í nærumhverfi á frumstigi. Það hefur skilað góðum árangri.

Það er svo margt sem við gætum rætt hérna frekar, t.d. það sem kom fram í skýrslu UNICEF frá 2011 um stöðu barna á Íslandi. Við þurfum að skoða samþættingu velferðar hjá börnum, allt frá heilsu barna til umhverfis þeirra. Vanræksla barna er til dæmis helsta ástæða tilkynninga til barnaverndarnefndar er varða ofbeldi. Mikil þörf er á rannsóknum á vanrækslu barna líkt og ofbeldi gagnvart börnum. Það má reikna með að 2–4 þús. börn séu þolendur heimilisofbeldis eða búi við heimilisofbeldi á ári hverju á Íslandi, en ef 2 þús. börn eru þolendur heimilisofbeldis á hverju ári, ef við miðum við lægri töluna, er aðeins tilkynnt um 14% þeirra til barnaverndarnefndar. Við þurfum alltaf að brýna þessa vitundarvakningu og aukningu á tilkynningum.

Í lokin langaði mig að þakka fólkinu sem vinnur að þessum málaflokki á þessu landi og ég get ekki sagt það nægilega oft að það er líka skylda okkar þingmanna að sjá til þess að vernd barna nái inn fyrir þröskuld heimilanna.