144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[17:28]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins hnykkja á því hér í andsvari við hæstv. ráðherra, af því að hann gat ekki svarað því áðan, að það voru tvær spurningar sem stóðu eftir. Það er annars vegar þessi niðurskurður og tilfærsla á framkvæmdafé Vegagerðar til reksturs og niðurskurðar þar, sem þýðir að mínu mati ein þau minnstu fjárframlög sem verið hafa til verklegra framkvæmda. Það kemur sér illa vegna þess að innviðastyrkingin, sérstaklega á landsbyggðinni, er mjög mikilvæg og hefur heldur betur skilað árangri. Það sjáum við á fjölmörgum verkum sem við höfum unnið undanfarin ár.

Hitt atriðið var — ég ber þó alveg virðingu fyrir því ef hæstv. fjármálaráðherra getur ekki svarað því — það sem ég gerði að umtalsefni hvað varðar Háskólann á Akureyri, þessar 30 millj. kr. sem skólinn segir að vanti inn á þessu ári sem var fjárveiting sem var 2013 en datt einhverra hluta vegna út við 3. umr. fjárlaga fyrir þetta ár. Hvort það var viljandi eða óviljandi eða mistök veit ég ekki, en eins og ég gat um áðan er samkvæmt upplýsingum Háskólans á Akureyri bráðnauðsynlegt að fá það fé.

Spurning mín varðar þessi tvö atriði, Vegagerðina og Háskólann á Akureyri. Ég spyr hvort hæstv. fjármálaráðherra sé kunnugt um þessi mál hvað varðar Háskólann á Akureyri.