144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[17:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa það á mig að ég þekki það mál ekki nægilega vel til þess að úttala mig um það hér, það mál sem tengist Háskólanum á Akureyri, þessum 30 millj. kr. En eitthvað hefur gerst í meðferð fjárlaganefndar fyrst þetta var í frumvarpinu sem ég mælti fyrir en féll svo út. Það verður þá að vera verkefni nefndarinnar að taka það aftur til skoðunar.

Varðandi hitt málið, Vegagerðina, þá vék ég að því hér í dag að við erum að millifæra milli framkvæmdanna sem hafa tafist og eru á Bakka við Húsavík og síðan snjómoksturshallans. Við erum því að taka af framkvæmdafénu og setja í þjónustuna. Þá er eðlilegt að menn spyrji sig: Er verið að skera varlega niður framkvæmdaféð? Ég svaraði því í ræðu minni hér í dag að það er augljóst að þá verður að bæta við inn á árið 2016 til baka því sem tekið er af Bakkaverkefninu á árinu 2014, það sem er í raun tekið af því á þessu ári, vegna þess að það nýtist ekki á þessu ári. (Gripið fram í: En þá 2015?) Já, það var gert ráð fyrir tveggja ára verkefni, þannig að það er á fjárlögum næsta árs, en það verður líka að gera ráð fyrir því árið 2016 vegna þess að verkefnið er að tefjast. Þessi tilfærsla er hugsuð til þess að létta af Vegagerðinni gríðarlega miklum umframkostnaði vegna snjómoksturs.

Það er reyndar alveg sjálfstætt athugunarefni hvers vegna það munar á síðustu tveimur árum hátt í 2 milljörðum kr. á áætlunum um snjómokstur, það eru engar smáfjárhæðir. En (Forseti hringir.) með þessu er létt af (Forseti hringir.) Vegagerðinni þeim (Forseti hringir.) halla sem myndast vegna þessarar auknu þjónustu.