144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

lögreglulög.

372. mál
[12:51]
Horfa

Flm. (Eyrún Eyþórsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil fylgja þessu máli aðeins eftir. Ég tek undir margt af því sem hér hefur verið sagt og komið hefur fram. Ég vona að málið fái framgang í þinginu.

Ég vil bæta því við að kjaramál lögreglumanna ganga, eins og áður hefur komið fram, ekki bara út á hærri laun, krónur og aura, heldur líka út á áherslur þeirra um að fá að hækka menntunarstig lögreglumanna, að Lögregluskólinn fari upp á háskólastig. Þau ganga líka út á öryggismál, búnað og vinnuumhverfi og jafnframt út á eftirlaunamálið. Þess má geta að víða erlendis vinna lögreglumenn mun skemur en hér á landi. Í Bretlandi er ekki óalgengt að lögreglumenn hætti störfum um fimmtugt og fari á eftirlaun. Það er í hæsta máta óeðlilegt að lögreglumenn þurfi að starfa eins lengi og þeir gera hér á landi.

Ég vil líka aðeins koma inn á það að fái lögreglumenn aftur verkfallsrétt sinn er ekki ólíklegt að hann yrði takmarkaður að einhverju leyti, en þá vil ég leggja áherslu á að hann getur samt sem áður nýst í kjarabaráttunni.

Það eru mörg störf innan lögreglunnar sem hægt er að leggja niður tímabundið, en samt sem áður sinnir lögreglan neyðar- og öryggisþjónustu.

Þó að verkfallsrétturinn sé til staðar þarf ekki að vera að hann sé nýttur en hann er hins vegar gríðarlega mikilvægt tæki í baráttunni.