144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Líkt og vonandi fleiri hv. þingmenn þá hlustaði ég í gær á Kastljós þar sem rætt var við Snædísi og Áslaugu Hjartardætur. Þar sagði Snædís, sem er stjórnarmaður í Fjólu, félagi fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, frá því að hún upplifði það eins og alþingismenn héldu að fatlað fólk væri önnur dýrategund. Mér finnst að við eigum að hlusta á þetta, taka þetta til okkar og líta svolítið í eigin barm og skoða hvernig við afgreiðum mál á Alþingi sem viðkoma fötluðu fólki.

Snædís benti líka á að það væri eins og fatlað fólk væri aukaatriði sem hægt væri að veita góðgerðir sem fatlað fólk þakkaði svo kærlega fyrir. Það sorglega er, eins ánægð og ég er með að heyra þau tíðindi að meiri hluti fjárlaganefndar ætli að mæla með því að auknir fjármunir verði settir í túlkaþjónustu fyrir 2. umr. um fjárlög, að við erum einmitt svolítið að gera þetta, við erum að gera góðverk í stað þess að líta svo á að hérna sé um sjálfsagt mál að ræða. Aðgengi er alger forsenda þátttöku og þegar við á Alþingi samþykkjum lög verðum við alltaf að hugsa um áhrifin sem þau hafa á aðra. Við sem tilheyrum hópi fatlaðs fólks erum ekkert öðruvísi en aðrir,(Forseti hringir.) við erum fólk. Ef við höfum alltaf aðgengi og þátttöku í samfélaginu að leiðarljósi (Forseti hringir.) þá held ég að okkur geti farnast mjög vel við að setja lög sem gagnast öllum.