144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Mig langar að taka til umræðu vopnakaup Landhelgisgæslunnar. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd samþykkti fyrir nokkru að taka til skoðunar þann þátt sem varðar stjórnsýslu málefnisins, þ.e. ákvörðun um kaupin og innflutning vopnanna. Ég vona að við fáum gesti til að tjá sig um það sem fyrst og allsherjar- og menntamálanefnd hefur einnig haft málið til meðferðar og skoðar efnislega þætti málsins.

Mig langar í þessu sambandi til að vekja athygli á mjög athyglisverðri grein sem birtist í Kjarnanum í gær eftir Helen Ólafsdóttur en hún starfar sem ráðgjafi hjá Sameinuðu þjóðunum, m.a. varðandi vopna- og öryggismál. Helen bendir í fyrsta lagi á að venjan á Vesturlöndum sé að mál er varða innflutning á vopnum, sérstaklega val á skotvopnum fyrir löggæslu og her, séu yfirfarin í sérstökum þingnefndum sem gæta eftirlits með framkvæmdarvaldinu. Í öðru lagi að stórar breytingar á reglugerðum lögreglu, svo sem eins og um vopnaburð almennu lögreglunnar, sé eðlilegt að vinna í fagnefnd, leita eftir sérfræðiáliti og að vinnuferlið við það allt sé gagnsætt. Í þriðja lagi að ef ótti við hryðjuverk kallar á vopnavæðingu ætti slík umræða að fara fram í tengslum við öryggisáætlun landsins.

Virðulegi forseti. Við sem störfuðum í þingmannanefnd um mótun þjóðaröryggisstefnu hér á síðasta kjörtímabili — það var aldrei nefnt að þörf væri á að vopnavæða lögregluna.

Helen lýkur grein sinni með þessum orðum:

„Þess má einnig geta að lögreglan í Bretlandi hefur það sem yfirlýst markmið að vera gagnsæ um kaup og notkun vopna innan lögreglunnar. Það er ekki talinn góður siður í lýðræðisríkjum að skotvopnaeign lögreglu og notkun þeirra sé einkamál lögreglu og ráðherra.“

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Ég held að við ættum að hafa þessi orð að leiðarljósi í vinnu okkar með þessi mál og láta ekki segja okkur að ekki megi tala um þau opinberlega. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)