144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

hagnýting internetsins og réttindavernd netnotenda.

16. mál
[14:54]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er sannarlega rétt að með samræðum milli þingmanna og í nefndum og annað slíkt finnast lausnir; saman eins og við höfum hér fundið og það er mikilvægt. Ég vísa til minna fyrstu þingára þegar jafnvel stjórnarsinnar í nefndum fengu ekki leyfi til að gera, að manni fannst stundum, sjálfsagðar og nauðsynlegar breytingar á frumvörpum af því að það mátti engu breyta af því sem kom frá ríkisstjórn og ráðherrum.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður er að tala um hvað þetta varðar. Ég hvet hv. þingmenn Pírata sérstaklega í þessum efnum. Þeir eru miklu áhugasamari um þetta eða taka öllu heldur hlutina og skrifa þá niður, eins og hér hefur verið gert. Þó að við höfum mikinn áhuga þá er þarna annað svið og ég hvet þá til að halda þessu áfram vegna þess að þetta er mikilvægt.

Það er enn mikilvægara fyrir okkur Íslendinga sem eyþjóð að tengja okkur betur alheiminum. Ísland úti í miðju Atlantshafi er ekki fjær mörkuðum og öðru slíku en takkaborðið og enter-takkinn. Það er það sem er áhugavert við netið.