144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

bætt starfsumhverfi erlendra sérfræðinga.

123. mál
[15:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég vil bara lýsa yfir stuðningi mínum við þessa þingsályktunartillögu.

Mér datt í hug undir ræðu hv. þingmanns að gjarnan er sagt þegar verið er að tefja mál: Þetta er svo flókið. Oftast er það gert til að villa um fyrir fólki og láta sem það skilji ekki. Mér datt þess vegna í hug og trúi því að það sé mjög flókið fyrir útlending sem hingað kemur að sækja um atvinnuleyfi, búsetuleyfi og hvað það allt saman heitir. Það heyrir kannski fortíðinni til að hafa lögin og reglurnar þannig og er jafnvel bara einhver gömul hefð til að gera það frekar óaðlaðandi fyrir fólk að koma hingað.

Ég held að við þurfum að laga þetta, ekki bara fyrir erlenda sérfræðinga heldur þurfum við að laga þessi mál fyrir alla sem hingað koma. Ég held að það sé mjög auðvelt fyrir okkur að breyta þessum lögum. Það getur verið flókið að koma til landsins og fara eftir þeim, en það er mjög auðvelt fyrir okkur á þingi að breyta þessum lögum. Ég held að við ættum að skipa þennan starfshóp og stefna að því að breyta lögunum.