144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[16:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að leggjast í þrætur við hæstv. fjármálaráðherra um það hvernig hefði líka verið hægt að hafa meiri einurð á tekjuöflunarhliðinni á síðasta ári og sleppa því sem og ríkisstjórnin gerði, að hliðra til í tekjuöfluninni með þeim hætti að nýttist best þeim sem mest hafa á milli handanna og þeim atvinnugreinum sem mestum hagnaði skiluðu. Ég held að engum blandist hugur um það nú. Ég heyrði meira að segja hv. formann fjárlaganefndar beinlínis segja að það hefðu verið mistök að fara í þann leiðangur sérstaklega að létta álögum af ferðaþjónustunni á því mikla uppgangsári sem var í fyrra.

Það er auðvitað ekki þannig að hæstv. fjármálaráðherra hafi orðið fyrir einhverju sérstaki happi sem hafi óvart skilað jöfnuði á ríkissjóði á árinu 2013. Það er þvert á móti þannig að ef hann hefði haldið við þó ekki væri nema bara hluta af þeim tekjuöflunaráformum (Forseti hringir.) sem þegar voru komin fram þá hefði það verið honum algerlega tryggt í hendi.