144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[18:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu um þetta mál sem hefur af einhverjum sökum að mestu snúist um 4. gr. frumvarpsins, eða þá grein sem heimilar að stofnfé bankans sé lækkað um 26 milljarða og greitt í ríkissjóð. Eins og ég vék að í máli mínu fyrr í dag er sú niðurstaða í frumvarpinu fengin eftir margra mánaða víðtækt samráð við Seðlabankann og er í góðu samráði við bankann. Um hana er samstaða milli þeirra sem unnu frumvarpið fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðuneytisins og fulltrúa Seðlabankans. Sú tala er fengin að teknu tilliti til alls þess sem fram kemur í frumvarpinu að öðru leyti.

Það hefur verið einkennilegt að hlusta á þá umræðu undir 1. umr. þessa máls þar sem látið er að því liggja að undirliggjandi tilgangur með þessu öllu saman sé sá að afla ríkissjóði tekna en ekki sá sem ég vék að í upphafi máls míns, þ.e. að auka fjárhagslegt sjálfstæði Seðlabankans. Það er megintilgangurinn með þessu máli. Ég vék að því í framsöguræðu minni, eins og staðan er í dag getur komið til greiðslu hagnaðar til ríkissjóðs frá Seðlabankanum þrátt fyrir að eiginfjárstaðan sé neikvæð.

Fyrst ég tala um eigið fé Seðlabanka er það nú ekki alveg einfalt mál, hvað sem hver segir. Seðlabanki hvers lands er ekki eitthvert venjulegt fyrirtæki. Af þeim sökum er engin algild regla til, ef menn ætla t.d. að leita að fyrirmyndum annars staðar verða þeir fljótir að komast að þeirri niðurstöðu að hver hefur sungið það með sínu nefi hvernig eiginfjárreglum er stillt upp hjá seðlabönkum almennt. Þó er það svo að ákveðnar viðmiðunarreglur hafa þróast sem hér er byggt á, m.a. eftir ráðgjöf erlendra sérfræðinga sem hafa helgað sig þessum fræðum og er að finna nánari útlistun á þeim reglum í einstökum greinum frumvarpsins.

Ég hef heyrt sagt nokkrum sinnum í ræðum dagsins að Seðlabanki Íslands hafi á einhverjum tímapunkti verið gjaldþrota. Ef menn vilja botna þá umræðu mundi ég gjarnan vilja vita: Hverjir voru það sem Seðlabankinn skuldaði peninga og hann gat ekki greitt? Hverjir voru það sem ætluðu að herja á Seðlabankann og krefja hann um greiðslu en hann gat ekki staðið í skilum? Var það einhver sem átti kröfu á Seðlabankann sem hann átti ekki að geta staðið undir? Auðvitað er það ekki svo. Það er ekki svo að Seðlabankinn hafi á einhverjum tímapunkti verið uppiskroppa með fé. Það er eiginlega hálfgerð þversögn.

Hins vegar þótti tilhlýðilegt á sínum tíma að leggja Seðlabankanum til aukið eigið fé upp á tæpa 200 milljarða kr. Það skuldabréf stendur í dag í rúmum 170 milljörðum. Með því átti að tryggja að bankinn væri að fullu og óumdeilanlega fjárhagslega sjálfstæður. Ég fór í fyrri ræðu minni aðeins yfir það í hverju fjárhagslegt sjálfstæði seðlabanka felst, m.a. að hann hafi sjálfstæðan rekstur og hann þurfi ekki að reiða sig á opinber framlög með sama hætti og aðrar ríkisstofnanir. Það var kannski fyrst og fremst í þeim tilgangi sem skuldabréfið var gefið út, en það var að sjálfsögðu ekki svo að Seðlabankinn væri gjaldþrota, að hann gæti ekki greitt einhverjum einhverja reikninga sem á hann stæðu. Sú umræða virðist vera á miklum misskilningi byggð um eðli rekstrar og efnahags seðlabanka og verður að leiðrétta hér.

Varðandi tekjufærsluna sem fylgir þessu máli vil ég koma aftur inn á það að frá því að Seðlabankinn fékk umrætt skuldabréf hefur eigið fé bankans vaxið mjög verulega. Það er núna rúmlega 90 milljarðar. Það er ekki nema eðlilegt að þeirri spurningu sé velt upp sem er í raun undirliggjandi í frumvarpsgerðinni: Hvað er fullnægjandi eigið fé fyrir bankann? Hver er eðlileg viðvarandi eiginfjárstaða fyrir bankann? Er t.d. þörf á því að ríkið taki á sig háar vaxtagreiðslur af skuldabréfinu á sama tíma og bankinn hefur mjög sterka eiginfjárstöðu? Því er ekki hægt að svara nema taka inn í myndina allar þær breytur sem við ræðum í tilefni af þessu frumvarpi.

Með þessu frumvarpi er ein ákveðin grundvallarbreyting komin inn sem mér finnst allt of lítið hafa verið gert úr í umræðunni í dag. Hún er sú að samhliða því að bankinn greiði út til ríkissjóðs þessa 26 milljarða fær hann standandi innkallanlegt eiginfjárloforð frá ríkissjóði sem mundi standa samkvæmt heimildarákvæði í fjárlögum.

Eitthvað hefur verið rætt um að það kunni að standa í vegi fyrir innköllun eigin fjárins að fyrir því þurfi samþykkt í réttum stofnunum Seðlabankans, t.d. ef eiginfjárstaðan er ófullnægjandi og bankinn óskar eftir því að hagnaður af rekstri hans bætist við eigið féð. Eins ef bankinn kallar eftir innborgun á eigið fé vegna ófullnægjandi eiginfjárstöðu til þess að leiðrétta það og hafa það í ásættanlegri stöðu.

Í stað þess að sjá þessar hindranir sem galla á málinu þætti mér nær að menn bæru það saman við núverandi stöðu þar sem bankinn hefur enga tryggingu, hann er algerlega berskjaldaður fyrir þeirri stöðu sem kom t.d. upp hér 2008 og 2009. Hann hefur enga tryggingu fyrir innborgun eigin fjár. Hann getur lent í því, eins og ég hef bent á hér oftar en einu sinni, að greiða út arð til ríkissjóðs þrátt fyrir neikvæða eiginfjárstöðu. Það er enginn varanleiki eða eðlileg lögfest viðmið til staðar um það hvernig þessum fjárhagslegu samskiptum Seðlabankans og ríkisins eigi að vera háttað yfir tíma. Á öllu því er tekið í frumvarpinu og það fært til betri vegar. Þess vegna ætti það að vera óumdeilanlegt að sjálfstæði Seðlabankans í þessu tilliti er mjög aukið með þessu máli og er það yfirlýstur tilgangur með málinu að tryggja sjálfstæði bankans hvað þetta snertir. Á því grundvallast að sjálfsögðu það ágæta samstarf sem ráðuneyti mitt hefur haft við Seðlabankann um málið, að niðurstaðan yrði í öllu falli sú, sama hver útfærslan yrði nákvæmlega, og hefur farið talsverður tími í að vinna að henni, að fjárhagslegt sjálfstæði bankans yrði aukið með þessum breytingum.

Það er þess vegna algerlega óþarft að gera þessa færslu milli Seðlabankans og ríkisins eitthvað tortryggilega. Á móti kemur standandi loforð upp á rúma 50 milljarða sem bankinn hefur ekki í dag. Það er standandi loforð. Hvenær sem á því þarf að halda getur bankinn kallað eftir því. Að sjálfsögðu gerist það með þeirri aðkomu þingsins eins og ég hef lýst hér og kemur fram í frumvarpinu.

Ég hef hlýtt á vangaveltur í dag varðandi sviðsmyndir til næstu þriggja ára. Það er út af fyrir sig rétt að sviðsmyndir geti verið að einhverju leyti óáreiðanlegar — við getum líka kallað þær rekstraráætlanir bankans þrjú ár fram í tímann að teknu tilliti til einhverra breytinga í efnahagslífinu. Það er eðlilegt að menn bendi á það, sérstaklega eftir því sem þeir spá lengra fram í tímann. En engu að síður þykir það eðlilegt að þegar ákvarðanir eru teknar um þessi mál sé m.a. horft til þess hver staðan er hjá bankanum í það og það skiptið og hvað blasir við í nánustu framtíð. Það er ekkert óeðlilegt að horft sé til næstu þriggja ára eins og hér er lagt upp með og reyndar er mjög auðvelt að sjá fyrir sér ástandið hér á árunum eftir fall fjármálakerfisins árið 2008 þar sem lagt var upp með ákveðna stöðu efnahagsreikningsins og áætlanir gerðar með hliðsjón af efnahagsáætlun stjórnvalda frá þeim tíma um það hvernig næstu ár mundu verða. Það þarf ekki að vera mikil nákvæmnisvinna eða ómannleg spágeta, heldur einfaldlega að menn setji það niður fyrir sig hvað líklegt er að gerist á næstu missirum og árum sem taka þurfi tillit til þegar ákvarðanir eru teknar um ráðstöfun hagnaðar eða innköllun eigin fjár.

Ég verð líka að gera sérstaka athugasemd við það að frumvarpið sé sett í einkennilegt ljós vegna skuldaaðgerða ríkisstjórnarinnar. Þetta mál hefur í sjálfu sér ekkert með þær að gera, enda er þegar komið fram að afkoma ríkissjóðs á árinu 2014 að öðru leyti gefur alveg nægt tilefni til þess að ráðast í flýtingu þeirra aðgerða. Það er skynsamlegt og heppilegt og kemur þeim til góða sem njóta eiga aðgerðanna. Við skulum hafa það í huga að án þeirra aðgerða og án þeirrar tekjufærslu sem hér er verið að ræða í tilefni af þessu frumvarpi stefndi í að afgangur á ríkissjóði væri u.þ.b. 40 milljarðar. Með tekjufærslunni sem tengist þessu máli stefndi í að afgangur af ríkissjóði væri um 60 milljarðar, en þegar gengið var frá fjárlagafrumvarpinu gerðu áætlanir ráð fyrir afgangi upp á einn milljarð.

Þetta mál er engin frumforsenda fyrir því að skuldaaðgerðunum sé flýtt, en hins vegar er því ekki að leyna að verulegur hluti af áætluðum heildarafgangi ársins tengist því máli. Það hefur legið fyrir allt frá því að fjárlagafrumvarpið kom fram og um það var fjallað í greinargerð með því.

Virðulegi forseti. Að því sögðu vil ég ítreka það sem ég hef áður sagt um það starf sem bíður nefndarinnar, ég tel að mörg af þeim álitamálum sem drepið hefur verið á í umræðunni í dag muni skýrast hratt í vinnu nefndarinnar. Nefndin þekkir líka málið frá því á vordögum. Þegar fram komu athugasemdir frá Seðlabanka Íslands undir meðferð nefndarinnar óskaði ég strax eftir því að nefndin léti málið bara liggja og við fengjum tækifæri til að fara yfir athugasemdir Seðlabankans sem við gerðum í vor og í sumar og fram á haust. Tekið hefur verið tillit til þeirra og málið er þannig fram komið að nýju með breytingum sem taka tillit til þeirra athugasemda. Það stóð aldrei til að afgreiða málið í ágreiningi við Seðlabankann, eins og mér finnst hafa verið látið liggja að hér.

Ég er sannfærður um að þegar nefndin kallar eftir skýringum á þeim atriðum sem verið hafa til umræðu í dag muni menn átta sig á því að málið snýst ekki um neitt annað en þann yfirlýsta megintilgang að styrkja eiginfjárstöðuna. (Forseti hringir.) Það mun hafa í för með sér ákveðnar fjárhagslegar afleiðingar fyrir ríkissjóð á þessu ári, en það er í sjálfu sér algert aukaatriði í málinu í stóra samhenginu.