144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

útboð á verkefnum ríkisstarfsmanna.

[10:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við hljótum öll að vera hugsi yfir stöðu þess fólks sem hefur starfað að ýmsum verkefnum hjá ríkinu sem síðan hafa verið boðin út, starfskjörum þess og aðstæðum. Við hljótum að velta fyrir okkur hvort við þurfum ekki að tryggja að þau sem hafa unnið fyrir okkur hjá ríkinu mikilvæg störf haldi starfskjörum sínum þó að skipulagi sé breytt, t.d. með útboði, og tryggja að eftir útboð sé ekki gengið óhóflega á réttindi þeirra eða lögð á þau aukin vinna og auðvitað ekki síst að aðkoma verkalýðsfélaga til að tala fyrir réttindum þessa fólks sé tryggð.

Ég spyr þess vegna hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi ekki einhver úrræði til að hlutast til um það að starfsfólk við ræstingar á Landspítalanum fái að njóta stuðnings verkalýðsfélags síns. Fregnir um að fulltrúa verkalýðsfélags sé vísað af fundi hjá því fyrirtæki sem hjá ríkinu fer með ræstingarnar eru algerlega óþolandi.

Ég spyr líka hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji ekki ástæðu til að endurskoða almennt útboðsskilmála um verk af þessu tagi til að tryggja starfskjör þeirra sem þar vinna og réttindi og að starfsfólkið sé ekki undir óhóflegu vinnuálagi. Um leið spyr ég hvort hæstv. fjármálaráðherra telji ekki, í ljósi þessara fregna og upplýsinga sem við höfum fengið um stöðuna á fleiri en einum stað, nauðsynlegt að endurskoða útboðsskilmála hjá Stjórnarráði Íslands og tryggja í þeim bæði kjör þeirra sem hafa unnið að þessum verkefnum í Stjórnarráðinu og réttindi þeirra sem kunna að koma þar að á vegum undirverktaka (Forseti hringir.) hjá ríkissjóði Íslands.