144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

rekstrarvandi Landspítalans.

[10:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi þessa fyrirspurn er rétt að það hefur komið fram að stjórnendur Landspítalans meti stöðuna þannig að það skorti auknar fjárheimildir inn á næsta ár til að annast um þau verkefni sem spítalinn hefur með höndum. Sú umræða sem nú hefur verið uppi um að fækka þurfi störfum á Landspítalanum á bilinu 70–100 ef fjárlagafrumvarpið verður samþykkt óbreytt þýðir ekki í mínum huga, eins og kemur fram í máli hv. fyrirspyrjanda, að það sé ljóst að það þurfi að skera niður þjónustu á Landspítalanum. Það liggur engin endanleg ákvörðun fyrir um það fyrr en Alþingi hefur afgreitt fjárlög fyrir árið 2015.

Það er áhersluatriði sem stjórnendur Landspítalans hafa sett fram. Það er enn til umræðu meðal stjórnenda Landspítalans með hvaða hætti væntum niðurskurði að óbreyttu fjárlagafrumvarpi verði mætt. Ég hef átt viðræður við forstjórann um þetta og við höfum farið yfir mögulega kosti í þeirri stöðu ef þessum viðbótaróskum um fjárheimildir verði ekki mætt. Í mínum huga er einfaldlega allt of snemmt að segja nokkuð til um það. Vilji ríkisstjórnar til að mæta með einhverjum hætti þeim óskum sem komið hafa fram frá Landspítalanum liggur fyrir og ég vænti þess að við sjáum þess að einhverju leyti stað í tillögum ríkisstjórnar og meðferð Alþingis við endanlega afgreiðslu fjárlaga.

Ég legg áherslu á að ef til hagræðingar kemur verður það gert í samstarfi við stjórnendur (Forseti hringir.) Landspítalans.