144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér má sjá í breytingartillögu að enn heldur ríkisstjórnin áfram klípum sínum gagnvart Ríkisútvarpinu þó að í litlu sé í þessu tilviki. Við höfum fengið ítarlegar upplýsingar um það á undanförnum mánuðum hversu alvarleg staða Ríkisútvarpsins er en við sjáum bara algert stefnuleysi um framtíðina frá stjórnarmeirihlutanum í þinginu.

Við lesum hins vegar í blöðum um hvað skuggastjórnendur þessarar ríkisstjórnar ætla sér fyrir varðandi Ríkisútvarpið. Markmiðið er að beita takmörkuðum fjárveitingum til að knýja stofnunina til að breyta umfjöllun sinni í þjóðmálum, að hafa áhrif á það með hvaða hætti þjóðmálaumfjöllun stofnunarinnar er hagað og skerða sjálfstæði hennar. Það er mjög dapurlegt að sjá ríkisstjórnarflokkana ganga fram með þessum hætti.

Það er grundvallarskylda okkar að standa vörð um Ríkisútvarpið og almannaþjónustuhlutverk þess. Við hljótum að fara fram á það við ríkisstjórnarflokkana að þeir eigi við okkur samtal um hvernig þeir skilja almannaþjónustuhlutverkið og hvernig þeir ætla að tryggja að stofnunin hafi burði til að mæta því.