144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

365. mál
[11:07]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra er þetta í annað skipti sem þetta frumvarp er lagt fram. Nokkrar umræður urðu um það í vor þegar það var lagt fram og þingmenn gerðu nokkrar athugasemdir og spurðu spurninga. Það vekur eftirtekt mína að í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að þetta hafi verið rætt, þessar umræður hér á þingi, við yfirmenn kirkjunnar eða þá sem eru ábyrgir fyrir samningu þessa frumvarps og þeir hafi ekki séð ástæðu til að breyta neinu í því. En í 1. og 2. gr. er verið að tala um hvernig taka eigi á agabrotum innan kirkjunnar. Það hefur því miður verið nokkuð alvarlegt ástand í þeim efnum innan kirkjunnar á undanförnum árum og þess vegna þurfum við að hafa sérstaka gát á.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort kirkjuþing hafi sett þær starfsreglur sem þykir eðlilegt að kirkjuþing setji en á hinn bóginn séu áfrýjunarnefndin og úrskurðarnefndin lagðar af.