144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni svarið og til að taka undir það sem hann nefndi seinast með mat þá var það einhvern tímann þannig að menn gátu einfaldlega búið til sinn mat. Það er ekki hægt á Íslandi lengur. Við erum einfaldlega of mörg. Ísland stendur ekki undir matarframleiðslu fyrir alla þjóðina. Það er ekki unnar matvörur hér fyrir nema um það bil 50% þjóðarinnar samkvæmt mínum heimildum. Vonandi er það nú rangt, en þá í rétta átt.

Hvað um forgangsröðun á öðrum þáttum? Mér finnst forgangsröðunin augljós þegar kemur að matvælum og vatni og súrefni — ef við værum að borga fyrir súrefni, guð forði okkur frá því að þurfa nokkurn tímann að gera það. En það eru aðrir þættir sem eru undanþegnir virðisaukaskatti eins og íþróttastarfsemi, leiga á aðstöðu til íþróttastarfsemi, fólksflutningar, flutningur á ökutækjum með ferjum, póstþjónusta, fasteignaleiga og útleiga bifreiðastæða, vátryggingarstarfsemi, þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, happdrætti og getraunastarfsemi. Það er fullt af þjónustu sem er undanskilin virðisaukaskatti og þessu hlýtur að vera forgangsraðað, ýmist eftir því hvort það sé raunhæft eða hvort eðli þjónustunnar sé þannig að hún mundi ekki ganga upp án virðisaukaskatts. Mér finnst þetta alltaf vanta í umræðuna um hvað eigi að vera í hvaða skattþrepi, hversu há prósentan eigi að vera (Forseti hringir.) og svo framvegis. Þetta (Forseti hringir.) snýst ekki bara um mat í mínum huga heldur um (Forseti hringir.) fyrirbærið virðisaukaskatt. (Forseti hringir.)