144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er þægilegt að koma í pontu eftir andsvör hv. þingmanna því þá getur maður haldið áfram umræðunni. Ég vil nota tækifærið og ítreka að ég er algerlega tilbúinn til að leggjast á árarnar með hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur þegar kemur að því að sækja peninga sem sannarlega eiga að vera hjá ríkinu. Hún nefndi bótasvik og ætlar að fylgja því máli eftir innan hv. fjárlaganefndar og ég mun gera það sem ég get til að aðstoða hv. þingmann í því. Ég held að það sé bara hið besta mál og að sjálfsögðu erum við á svipuðum stað og þær þjóðir sem við berum okkur saman við og við eigum auðvitað að gera betur. Það á ekki að líðast að hér séu svik, hvort sem það eru bótasvik eða einhver önnur, þannig að ég bíð spenntur eftir frumkvæði hv. þingmanns og mun styðja það eftir því sem ég get.

Ég vildi hins vegar aðeins út af RÚV þar sem ég vísaði í ranga frétt, sem ég hef ekki getað fengið leiðrétta þrátt fyrir að ég sé með tölur úr ríkisreikningi sem sýna að sífelldar og endurteknar yfirlýsingar um að framlög skattgreiðenda til RÚV séu ekki í samræmi við það sem er tekið af útvarpsgjaldinu, það er bara ekki rétt. Ég ætla að lesa upp tölur sem voru unnar fyrir mig, þær er úr ríkisreikningi frá 2005–2013, en tölurnar 2014 og 2015 eru fjárlög. Svo ég endurtaki það þá eru árið 2005 innheimtar tekjur af útvarpsgjaldinu sambærilegar við það sem var sett í rekstur Ríkisútvarpsins, það munar 20 millj. kr. Árið 2006 var sett 612 milljónum meira úr ríkissjóði í Ríkisútvarpið en það sem fékkst af útvarpsgjaldinu. Árið 2007 var það 77 milljónum meira, árið 2008 var það 73 milljónum meira og árið 2009 var það 995 milljónum meira sem skattgreiðendur greiddu inn í Ríkisútvarpið en það sem var innheimt af skattstofninum, útvarpsgjaldinu. Þetta var í tíð sjálfstæðismanna. Síðan kom ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Árið 2010 var innheimt útvarpsgjald 272 milljónum meira en það sem fór í Ríkisútvarpið, árið 2011 484 milljónum meira sem var innheimt af útvarpsgjaldinu en fór í Ríkisútvarpið og árið 2012 var það 375 milljónum meira það sem var tekið af útvarpsgjaldinu en það sem fór í rekstur útvarpsins. Árið 2013 var það 549 milljónum meira, þá hætti sú ríkisstjórn, ný ríkisstjórn tók við og þá var 551 milljón meira tekið af útvarpsgjaldi en fór í reksturinn. Miðað við áætlanir núna þá er það á pari. Ef þetta allt er tekið saman á verðlagi hvers árs þá er 493 milljónum meira tekið af útvarpsgjaldinu en það sem var sett í útvarpið, en ef þetta er hins vegar framreiknað miðað við verðlag 2015 snýst dæmið við og framlag skattgreiðenda er þá 27 milljónum meira en það sem innheimt er af útvarpsgjaldinu, 27 milljónum meira.

Ég hef reynt núna, þegar ég uppgötvaði hvað hafi verið sagt á síðustu tveim kvöldum í Ríkisútvarpinu, að fá leiðréttingu á þessu án nokkurs árangurs. Það er ekki einu sinni leiðrétt það sem var fullyrt að ég hafi ekki viljað fara í viðtal við útvarpið á sama tíma og ég var að semja við forstöðumann Kastljóssins um að koma til að ræða um RÚV. En við vorum sammála um það, ég og forstöðumaðurinn, að það væri kannski ekki sanngjarnt, þar sem konan mín á afmæli bara einu sinni á ári, að ég mundi skrópa í það afmæli fyrir þann ágæta þátt.

Ég veit ekki af hverju RÚV vill ekki leiðrétta þessa frétt, ég veit það ekki. En ég veit að þeir hv. þingmenn sem halda því fram að útvarpsgjaldið hafi ekki skilað sér — ekki það að útvarpsgjald er ekki eign neinnar stofnunar hvorki Ríkisútvarpsins né neinnar annarrar, ég mun gera það sem ég get til að koma þessum leiðréttingum áleiðis, en þú getur auðvitað ekki keppt við fjölmiðil. Ef fjölmiðill ætlar að halda einhverju öðru að fólki þá getur þú aldrei keppt við hann. Það eru nokkrir hér í salnum, ég býð hæstv. ráðherra Kristján Þór Júlíusson velkominn, kominn tími á að hann og ýmsir aðrir góðir hv. þingmenn kæmu í salinn og hlustaðu á mig en það hefur lítið að gera í keppni við fréttastofuna.

Ég ætla að fara aðeins yfir helstu atriðin sem mér finnst skipta máli í frumvarpinu og fara kannski örlítið yfir gagnrýni stjórnarandstöðunnar sem er að vísu mjög mismunandi en nauðsynleg. Við verðum auðvitað að fá gagnrýni, við þurfum ekki að hafa áhyggjur af skorti á henni. Í fyrsta lagi er fagnaðarefni að um hallalaus fjárlög er að ræða og menn tala hér eins og það sé fullkomlega sjálfsagt og tala jafnvel um að það sé eitthvert náttúrulögmál að viðspyrna sé í þjóðfélaginu og síðan er tekið það dæmi að eftir bankahrunið hafi hallinn verið 120 milljarðar kr. Það er rétt, en það var einskiptiskostnaður að því leyti til að það kom út af því að menn settu fjármagn í bankana. Það var stærsta einstaka ástæðan. Ástæðan fyrir því að við erum í þeirri stöðu sem við erum í dag, sem er tiltölulega góð að mörgu leyti, er vegna þess að hér voru greiddar niður skuldir fyrir bankahrunið. Og þeir stjórnmálamenn sem voru að stærstum hluta í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki og líka í Samfylkingunni, þrátt fyrir að það sé ekki vel þekkt staðreynd var Samfylkingin með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn, fengu litlar þakkir fyrir og litlar þakkir fengu menn fyrir að greiða inn á lífeyrisskuldbindingu hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Við erum komin á þann stað, eða ég vona það, að við tölum um að við verðum að hafa hallalaus fjárlög. En það að við skyldum greiða niður skuldirnar og fara í neyðarlögin var skynsamlegt, sem allir flokkar á Alþingi samþykktu, nema einn og það voru Vinstri grænir. Þeir treystu sér ekki til að samþykkja neyðarlögin. En sem betur fer var samstaða um að setja þau lög. Ég hef ekki hitt einn einasta mann sem hefur kynnt sér málið, hvorki hér á landi né annars staðar, sem telur að það hafi verið neitt annað en afskaplega skynsamlegur gjörningur.

Rætt hefur verið um vinnulagið í nefndaráliti meiri hlutans. Vinnulagið er um margt gagnrýnisvert. Hér var rætt, m.a. af hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur, um nýtt frumvarp um opinber fjármál og ég er sammála hv. þingmanni þegar hún segir að við megum ekki líta á það sem lausn á öllum vanda. Svo er ekki. Við þurfum að nota þá reynslu sem við höfum af vinnu síðustu tveggja ára í fjárlögunum til að meta það hvernig best er að hafa þau lög og einnig vinnulagið til framtíðar. Við verðum að vera með það nokkuð skýrt, sumt verður aldrei skrifað, hvert hlutverk fjárlaganefndar er í fjárlagagerðinni eftir að fjárlögin koma til þingsins. Það hefur oft verið gagnrýnt af ástæðu að framkvæmdarvaldið sé sterkt á Íslandi og ráðherraræði mikið. Það kemur að mörgu leyti fram í fjárlagavinnunni og þar þurfa menn að fara hreinskilnislega yfir þá hluti í rólegheitunum þegar fjárlagavinnunni er lokið og meta það þannig að allir séu með það á hreinu hvert hlutverk fjárlaganefndar er í því og tala hreinskilnislega um það hvaða ákvarðanir fjárlaganefnd tekur og sömuleiðis þingmeirihluti. En hvað um það.

Ég nefndi að að mörgu leyti værum við í þokkalegri stöðu en það kemur líka til vegna þess að þau lönd sem við berum okkur saman við eru alveg í gríðarlega erfiðri stöðu, sérstaklega þau lönd sem eru í gömlu Evrópu. Kjarnaríkin í Evrópusambandinu eru í mun verri stöðu en maður hafði áttað sig á. Við erum í þeirri stöðu núna að að öllu óbreyttu munum við ekki byrja að greiða niður skuldir fyrr en árið 2017 og þriðji stærsti útgjaldaliður okkar er vaxtakostnaður. Fyrst eru það heilbrigðismálin, síðan eru það almanna- og velferðarmálin og síðan er það vaxtakostnaður. Vaxtakostnaðurinn er hærri en sem nemur öllum framlögum til Landspítalans og Sjúkratrygginga. Og það að við séum með svona háan vaxtakostnað þýðir bara eitt að við erum með skipulegum hætti að koma í veg fyrir það að börnin okkar og barnabörnin geti haldið sömu lífskjörum og við. Það er bara nákvæmlega það sem við erum að gera og við verðum því að ná þessum kostnaði niður eins hratt og mögulegt er.

Þegar menn tala um ríkisskuldir tala menn alltaf um hluta af ríkisskuldunum. Menn tala alltaf bara um það sem kemur fram í samanburðartölum OECD og kemur fram í ríkisreikningi, allir þessir þættir eru auðvitað þar, en menn ræða hins vegar aldrei um lífeyrisskuldbindingarnar. Lífeyrisskuldbindingarnar eru nákvæmlega eins og aðrar skuldir að það þarf að greiða þær. Það er stóri gallinn við þær. Og eins og staðan er núna verður gamla deildin ógjaldfær, við getum sagt gjaldþrota árið 2027. Þá þurfa skattgreiðendur að reiða af hendi 20 milljarða á ári í tíu ár til viðbótar við það sem nú er gert og síðan fer sú upphæð lækkandi. A-deildin, sem við ætluðum ekki að safna skuldum í, við erum byrjuð að safna skuldum þar, síðast þegar ég man var það held ég um 40 milljarðar, það bætist því ofan á. Maður getur orðið mjög þungur á brún þegar maður lítur á þetta eins og þegar maður lítur á önnur lönd, meira að segja lönd eins og Þýskaland þá sjáum við að þeir eiga bara nokkurn veginn ekki neitt í lífeyrissjóði. Þetta er elsta þjóð í heimi ásamt Japönum. Þegar maður lítur á evruríkin getur maður ekki séð annað en að þar verði mjög alvarlegt ástand þegar lífeyrisgreiðslurnar falla á með enn meiri þunga en þær gera núna sem er innan tiltölulega fárra ára, því að þeir eru með skuldbindingar í lögum um að greiða lífeyri í gegnum sitt lífeyriskerfi. En munurinn liggur í því að það er gegnumstreymiskerfi, það er ríkiskerfi og það eru engir peningar til að greiða út. Hvað þetta varðar erum við í miklu betri stöðu.

Síðan er það að við horfum núna á mjög breytta aldurssamsetningu íslensku þjóðarinnar. Auðvitað er það að stærstum hluta gott mál. Það er auðvitað mjög gott mál og frábært að fólk verði eldra og að lífsgæðin verði betri, en það kallar á breytta forgangsröðun hjá okkur. Það kallar á breytt þjóðfélagsskipulag vegna þess að aldurspýramídinn er að breytast mjög hratt. Einstaklingum 67 ára og eldri mun fjölga um 50% á næstu tíu árum. Samkvæmt meðaltali OECD er kostnaður þjóðfélaga vegna hvers einstaklings eldri en 65 ára fjórum sinnum meiri en þeirra sem yngri eru. Það þýðir einfaldlega þegar við sjáum slíka breytingu að miklu meiri eftirspurn verður eftir heilbrigðisþjónustu.

Það er ekki bara Landspítalinn. Ein af ástæðunum fyrir því að við þurfum að byggja nýjan Landspítala er að legudögum mun fjölga þar út af breyttri aldurssamsetningu. Það mun ekki breytast þrátt fyrir fjölgun þjóðarinnar hjá yngri aldurshópunum heldur fyrst og fremst hjá 60 ára og eldri. Að auki þurfum við að öllu óbreyttu að byggja upp hjúkrunarrými fyrir um 40 milljarða kr. og ef ég man rétt yrði rekstrarkostnaður til viðbótar um 12,7 milljarðar. En ég tel að vísu að við þurfum þar að fara í fjölbreyttari úrræði, læra af þeim þjóðum sem eru lengra komnar hvað þetta varðar, þ.e. þær sem eru eldri að meðaltali, og það er þannig með flestar þjóðir OECD.

Ég hef áhyggjur af því núna, þegar svo sannarlega eru ýmis jákvæð teikn á lofti í ríkisfjármálunum, að við missum sjónar á því að þurfa að halda áfram að hagræða, við þurfum að halda áfram að forgangsraða í þágu grunnþjónustunnar og við verðum að fá meira út úr þeim fjármunum sem eru til staðar núna og við setjum í ríkisreksturinn. Við tökum á nokkrum þáttum hér, virðulegi forseti. Í fyrsta lagi minnumst við á innkaupa- og útboðsmálin. Það er fullkomlega óþolandi að þau tæki sem til staðar eru séu ekki nýtt, þ.e. sem snýr að útboðum og rammasamningum hjá ríkisstofnunum. Það eru fjölmörg dæmi þess að það hafi sparað gríðarlega mikið.

Ég ætla að taka eitt dæmi sem nefnt er í nefndarálitinu en þar segir, með leyfi forseta:

„Dæmi um jákvæða þróun rammasamninga og örútboða eru fjölmörg. Nýlega bauð t.d. Rekstrarfélag Stjórnarráðsins út síma- og fjarskiptaþjónustu fyrir ráðuneytin með örútboði innan rammasamnings. Í kjölfarið lækkaði fjarskiptakostnaður félagsins um 22,5 millj. kr. eða 27%. Margar stofnanir hafa nú þegar boðið út fjarskiptaþjónustu með þessum hætti. Af öðrum dæmum má nefna nýleg örútboð á raforku, tölvukaupum, hugbúnaðarleyfum og þjónustu iðnaðarmanna.“

Fjarskiptaþátturinn, 27%, og maður spyr sig: Af hverju er ekki allt ríkiskerfið búið að fara í útboð hvað þetta varðar? Af hverju ekki? Finnst okkur það í lagi? Mér finnst eðlilegt, og ég mun beita mér fyrir því í hv. fjárlaganefnd og ég veit að það er stuðningur við það innan meiri hlutans, að við fylgjum þessu fast eftir. Mín skoðun er sú að ef viðkomandi stofnanir nýta sér ekki útboð þá á að lækka framlögin til þeirra. Ef menn vilja nýta peningana til að borga meira fyrir þjónustuna en þeir þurfa þá eiga þeir hreinlega að fá lækkun á sínum framlögum.

Við förum líka yfir það í nefndaráliti okkar að hagræðingarvinnan gengur ekki eins vel og til var ætlast. Af 95 tillögum sem voru á ábyrgðarsviði einstakra ráðherra hefur nú 14 tillögum verið hrundið í framkvæmd, 53 tillögur eru í vinnslu og 17 eru í forathugun. Vinna við 11 tillögur er ekki hafin eða þeim verður ekki hrint í framkvæmd. Nú er það ekki þannig að hrinda þurfi öllum tillögum í framkvæmd. Tillögurnar eru mannanna verk og má vel vera að einhverjar séu ekki nógu góðar eða einhver galli sé á þeim og þá eiga menn að taka ákvörðun um að fara ekki í þær. En við eigum hins vegar að klára þetta verk og klára það sem allra fyrst. Ég vil þó vekja athygli á því að hér hefur mönnum verið tíðrætt um heilbrigðismálin og nú vilja allir leggja áherslu á heilbrigðismálin og ég fagna þeim áhuga. Hann hefði betur komið fram fyrr. Ég vek athygli á því að frá því að núverandi ríkisstjórn tók við hefur verið skipulag á því að hækka framlög til heilbrigðismála. Þannig hefur Landspítalinn fengið hækkanir að raungildi síðustu þrjú ár, 2013–2015. Árið 2013 er ekki á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar, það var minnst 2013 og mest 2014. Fjárheimildir spítalans hafa hækkað um tæp 20% frá 2013. Á sama tíma hefur verðbólgan verið samtals 6% og launavísitalan hækkað um 12%. Ef spítalinn hefði aðeins fengið hækkanir sínar með launavísitölu væri framlag 3 millj. kr. lægra en núverandi fjárveiting.

Sjúkrahúsið á Akureyri hækkar líka um 20% á tímabilinu. Nokkrir aðrir þættir innan heilbrigðismála hækka enn meira, langmest sjúkraþjálfun og tannlækningar, eða 47% á þessum tveimur árum. Heilbrigðismál í heild sinni voru 25,3% af ríkisútgjöldum 2013 fyrir utan vexti og niðurfærsluna en verða 2015 26,2% af gjöldunum. Það er því alveg sama hvaða mælikvarða við tökum, það er algerlega ljóst að þarna hefur verið mikil hækkun. Efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins tók þessa hluti saman og telur að framlög til Landspítalans séu núna, ef ég man rétt, 1,8 milljörðum hærri en þau voru árið 2008 á sams konar verðlagi. Þetta skiptir máli og mikilvægt er að menn séu meðvitaðir um þetta.

En það þarf líka að fara yfir afköstin í heilbrigðisþjónustunni. Þó að við séum ekki búin að fá nýjustu tölur þá virðist vera að framleiðsla, ef þannig má að orði komast, mæld í DRG-kerfinu, sem er búið að vera í einn áratug ef ekki lengur á Landspítalanum, sýnir minnkun á DRG-einingum á Landspítalanum sem er auðvitað áhyggjuefni. Það er ekki nægjanlegt að líta bara til fjármunanna, við verðum líka að skoða gæðin og afköstin. Það er til lítils að setja fjármuni til hans ef það skilar sér ekki í bættri þjónustu fyrir sjúklingana. Því miður eru mörg dæmi þess að aukin fjárframlög skili sér ekki með þeim hætti.

Síðan er hér hlutur sem ég verð að viðurkenna að veldur mér mestum vonbrigðum og það er Íbúðalánasjóður. Tillögur liggja fyrir um hvernig væri best að koma þeim málum fyrir, þ.e. málefnum Íbúðalánasjóðs. Við erum í þeirri stöðu að 90% af lánum til húsnæðiskaupa fara í gegnum aðrar leiðir en Íbúðalánasjóð. Vandi sjóðsins felst í því að fólk vill ekki eiga viðskipti við hann og vandinn eykst þá með hverjum deginum. Rekstrarkostnaður sjóðsins er 3.000 milljónir á ári, tapið er 3.000 milljónir á þessu ári og framlögin verða að öllu óbreyttu 5,3 milljarðar, 5.300 milljónir, á næsta ári. Og núna, á vakt þessarar ríkisstjórnar, eru framlögin þegar orðin 13,3 milljarðar og þegar allt er tekið saman er þetta að verða komið upp í 60 milljarða, það er nýr landspítali. Ljóst er að við getum skrúfað fyrir þennan leka á fjármunum almennings með því að hætta útlánum og hætta hefðbundinni starfsemi sjóðsins. Það er löngu kominn tími til að taka þá ákvörðun. Ég hvet hv. þingmenn til þess. Við viljum núna allir, alveg sama í hvaða flokki við erum, það eru allra handa mál sem við viljum setja fjármuni í eðli málsins samkvæmt, enda eru verkefnin mörg og þau eru endalaus. Menn leita jafnvel að 10 milljónum, 50 milljónum eða 100 milljónum. Hér eru milli 5 og 6 milljarðar sem fara bara í umrædda stofnun á næsta ári. Auðvitað gætum við nýtt þá fjármuni til að greiða niður skuldir, og þó væri ekki nema hluti af þeim, 10% af þeim, 500 og eitthvað milljónir sem við gætum nýtt í þörf verkefni. Við verðum að ýta á framkvæmdarvaldið til að taka ákvörðun í þessum málum sem allra fyrst. Það var ekki gert á síðasta kjörtímabili. Það var slæmt og það kostaði mikið og þarna eru virkilega stórar upphæðir.

Ýmislegt hefur verið rætt hérna og hafa menn farið jafnt í tekjuhlutann sem útgjaldahlutann og það er allt í lagi. Menn hafa talað um skattbreytingarnar en mér finnst ekki vera samræmi á milli þess því að ég held að í hjarta sínu séu hv. þingmenn allir sammála um að hafa hér skilvirkt skattkerfi. Og af hverju að hafa skilvirkt skattkerfi? Það er skattkerfi sem skilar mestu en það snýst ekki endilega um háa skatta. Það snýst um það að tekinn sé skattur af því sem á að taka skatta af. Ef mörg þrep eru og langt á milli þeirra þá er það ávísun á að viðkomandi skattkerfi verði óskilvirkt. Svo mikið er víst að við munum aldrei geta náð að loka því öllu með einhverju gríðarlegu eftirliti. Þá þyrftum við að hafa eftirlit með allri starfsemi, stórri og smárri, en nægt er eftirlitið samt. Einföldun er því lykilorð í þessu. Ég var að vonast til þess að þokkaleg sátt væri um það og mér finnst svo vera þegar menn tala um þetta þó svo menn grípi til allra handa popúlisma í þessu og tali eins og það eina sem fólk neyti sé matur. Það er bara ekki svo. Það er margt annað sem fólk þarf og það er mælt með vísindalegum og sambærilegum hætti alls staðar annars staðar í heiminum. Menn geta kallað það öllum nöfnum en þetta eru hreinlega mælingar sem liggja fyrir. Hagstofan mælir þetta, Hagstofan fann þetta ekki upp hjá sjálfri sér heldur eru þetta sambærilegar mælingar og eru hjá öðrum þjóðum. Og að við leggjum af vörugjöld sem eru fullkomlega skattalegur bastarður, þá er það auðvitað mikil einföldun á kerfinu og ýtir undir betri lífskjör. Það styrkir verslun á Íslandi og kemur í veg fyrir — ég veit ekki hvernig á að orða það, hvað kallar maður það þegar litlir atvinnurekendur þurfa að eyða drjúgum tíma í að vinna í því að viðkomandi vara sé í tollflokki sem ekki ber vörugjöld, þurfa jafnvel að kalla lögfræðinga til, hvað kallar maður það þegar tollverðir sitja með ljósmyndir af viðkomandi tækjum eða eru með þau í höndunum til meta það hvort brauð sé ristað lóðrétt eða lárétt því þar skilur á milli hvort vörugjald skal lagt á eða ekki?

Talað er um lýðheilsu. Ég fagna því að menn hafi áhuga á henni, menn hefðu betur haft meiri áhuga á henni þegar fram kom lýðheilsustefna, heilsustefna haustið 2008, sem síðasta ríkisstjórn, því miður, illu heilli henti út um gluggann. Þar höfðu unnið fleiri, fleiri sérfræðingar, tugir ef ekki hundruð, um markaða áætlun sem var mælanleg um að vinna að lýðheilsumálum. Það var ekki hægt. Þess í stað settu menn eitthvað á sem heitir sykurskattur. Nú er það alveg sjónarmið vegna þess að sykurinn er mjög óhollur, um það er ekki deilt. Hann er hins vegar í mjög mörgum matvörum, en hann er mjög óhollur í óhófi. En það vita líka allir sem vilja vita að ef nýta á hann til neyslustýringar verður að hafa hann verulega háan. Þá erum við að tala um mörg hundruð prósent sykurskatt.

Ég var í viðskiptanefnd þegar við ræddum þau mál á sínum tíma þegar sykurskatturinn var lagður á. Sykurskatturinn kom m.a. fram í hækkun á verði á hjólbörðum. Sykurskattur leiddi af sér hækkun á þeim. Einnig kom í ljós að ákveðin efni eru með miklu meiri sætu en sykur og ábatasamara væri að smygla því til landsins heldur en hörðum eiturlyfjum vegna þess að það bar svo háan sykurskatt. Danir sem fóru þá leið að vera með hærri sykurskatt hættu við það einfaldlega vegna þess að þeim fannst það ekki ná því takmarki að vera neyslustýrandi. Það er gríðarlegt flækjustig í þessu en ég tel að þegar kemur að lýðheilsunni eigum við að vinna í viðhorfum og sjónarmiðum fólks. Það er eina leiðin til að ná raunverulegum árangri. Það er hægt, og við höfum sýnt það á ýmsum öðrum sviðum og við þurfum að gera það í þessu líka.

Menn ræða mikið um skuldaniðurfellinguna. Það er söngur í mínum eyrum þegar menn ræða um útgjöld ríkissjóðs hvort það sé sanngjarnt eða ósanngjarnt og hvort það sé skynsamlegt og hvort við gætum ekki nýtt það frekar til að greiða niður skuldir. En ég skil ekki hvernig forsvarsmenn síðustu ríkisstjórnar geti talið það sem algert prinsipp að einungis megi vera með húsnæðisaðstoð við þá sem hafa lægstu tekjurnar. Af hverju segi ég það? Vegna þess að ég hef tekið saman sérstakar vaxtabætur og meðaltalsvaxtabætur í hverjum tekjuflokki sem var lagt á á síðasta kjörtímabili. Það var svo sannarlega, sérstaklega með sérstöku vaxtabæturnar, að þeir sem voru með hæstu tekjurnar fengu verulegar sérstakar vaxtabætur, þannig að það var ekki prinsipp þá að sleppa þeim sem höfðu meiri tekjur.

Það sama var með hækkun barnabóta á síðasta kjörtímabili. Þær komu sér fyrst og fremst vel hjá þeim sem höfðu meiri tekjur. En gallinn við vaxtabætur er sem enginn ræður, á síðustu fimm, sex árum er það sambærileg upphæð og hefur verið í núverandi skuldaniðurfellingu, að vaxtabæturnar og hátt vaxtahlutfall er vitlausasta leið sem við getum farið. Þar erum við að ýta undir skuldsetningu, við erum að hvetja fólk til að skulda. Ég hef varað við þessu síðan 1995. Í rannsóknarskýrslu Íbúðalánasjóðs komu fram orðaskipti mín og hv. þingmanna Samfylkingarinnar þegar ég benti á þá augljósu staðreynd, og það er ekki eins og ég hafi fundið það upp heldur kynnti ég mér hvað gerðist í öðrum löndum, nánar tiltekið Noregi og Svíþjóð, að svona kerfi getur bara gengið upp meðan fasteignir hækka. Um leið og þær hætta að hækka, ég tala ekki um lækka, þá gerist það sem gerðist hjá okkur. Þetta er því mjög alvarleg staða. Við eigum að hjálpa fólki til að eignast húsnæði. Séreignarleiðin er mjög góð hvað það varðar og þessi leið er fyrst og fremst, sem við ættum að einfalda, skattalækkun til ákveðinna aðila, þ.e. skuldugra heimila og þar koma meðalfjölskyldurnar vel út úr því, getum við sagt. Það er ekki neinn glæpur að styrkja efnahag millistéttarinnar. Millistéttin knýr efnahagslífið áfram og það er enginn glæpur að hún fái eitthvað í sinn hlut. Menn geta síðan deilt um hvort þetta hafi átt að vera meira eða minna. Enginn vafi er að þessir fjármunir úr ríkissjóði fari inn á höfuðstól lána er miklu betri leið en vaxtabætur. Það er alveg 100%. Menn gleyma því að hér áður átti fólk, og kannski er það enn þá, að ráðleggingu sérfræðinga að fá sér hærri lán til að fá meiri vaxtabætur. Ég hef ekki fylgst með því en mér skildist að sólarlandaferðir hefðu verið sérstaklega mikið auglýstar á sama tíma og vaxtabætur voru greiddar út, og hver sem er getur dregið sína ályktun af því. Menn skyldu í þeirri umræðu slaka kannski örlítið á í vandlætingunni og hugsa um það hvernig fyrirkomulag við viljum hafa. Það fyrirkomulag sem ég vil hafa er að hjálpa fólki til að eignast húsnæði, ekki hvetja fólk til að skulda. Ef við hvetjum til skuldsetningar mun það alltaf enda í einhverjum ógöngum eins og varð svo sannarlega hér á Íslandi.

Ýmislegt annað mætti nefna. Menn tala um veiðigjald eins og það sé skattur sem sé endalaust hægt að ganga í. Hann hefur mjög lítið lækkað í tíð þessarar ríkisstjórnar. Hann var millifærsla, tekið var meira af þeim sem voru með stærri fyrirtæki og nú eru það í rauninni tveir fyrirtækjahópar sem greiða miklu hærri skatta en aðrir. Það er annars vegar sjávarútvegurinn og hins vegar fjármálafyrirtækin. Það er auðvitað gott ef við getum gripið og skattlagt þau fyrirtæki en við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að þau fyrirtæki eru í samkeppni við erlenda aðila, sérstaklega sjávarútvegurinn, og nú eru komnar fréttir af því að ýmislegt bendir til þess að það sé farið að hafa áhrif á samkeppnishæfni sjávarútvegsins. Það er eðli málsins samkvæmt ekki gott.

Við vitum hins vegar, og það gleymist í umræðunni, að menn eru búnir að blóta þessu fiskveiðistjórnarkerfi svo áratugum skiptir, blóta því alveg í sand og ösku. Stofnaðir hafa verið flokkar gegn því og ég held að hver einasti popúlisti á Íslandi hafi á einhverjum tímapunkti talað gegn fiskveiðistjórnarkerfinu. Og nú vil ég velta upp hvaða lönd taka veiðileyfagjald, ég veit svo sem ekki hve mörg stunda sjávarútveg, og ég hef bara fundið eitt. Það er Ísland. En hvaða lönd styrkja sjávarútveg með beinum hætti? Þar er af nógu að taka, ég nefni Bandaríkin, Japan, Suður-Kóreu, Noreg, Ítalíu, Tyrkland, Spán, Danmörk, Svíþjóð, Grikkland, Portúgal, Nýja-Sjáland, Bretland, Tékkland, Þýskaland, Finnland. Meira að segja Ungverjaland, Ástralía og Belgía styrkja sjávarútveg beint, misjafnlega mikið, en síðan er eitt land sem er með veiðileyfagjald og það er Ísland. Menn mættu hafa það í huga þegar við ræðum þessa hluti.

Virðulegi forseti. Ýmislegt hefur áunnist og við erum án nokkurs vafa á réttri braut en við verðum að átta okkur á stöðu mála. Staðan er einfaldlega sú að við þurfum að forgangsraða í þágu grunnþjónustu enn frekar en við gerum núna og við verðum að halda áfram aga í ríkisfjármálum. Það hefur sem betur fer tekist. Annars væri ekki lág verðbólga hér, það er ekki eina ástæðan, forsenda fyrir stöðugleika er agi og það er mjög gott að við ætlum að ná þeim þætti. En betur má ef duga skal. Verkefnin eru mörg, ég fór yfir helstu þætti en það er svo sannarlega ekki tæmandi.