144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er sammála, ég tel að setja eigi meira fjármagn í þessi mál og hef ekki heldur heyrt nein rök fyrir því að skynsamlegt sé að draga úr þessum málaflokki yfir höfuð.

En hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að skýra þyrfti betur hlutverk hv. fjárlaganefndar eftir að fjárlagafrumvarp er komið fram. Ég heyrði það einnig í ræðu hv. 2. þm. Reykv. n. og hjá hv. 10. þm. Norðaust. Ég velti fyrir mér hvað átt sé við með því. Hvaða vandamál eru þar? Hvernig sér hv. þingmaður hlutverk fjárlaganefndar fyrir sér í framtíðinni? Hvað telur hv. þingmaður að þurfi að skerpa varðandi hlutverk fjárlaganefndar og samskipti hennar við yfirvöld eða endurskilgreina og bæta með einhverjum hætti? Ég hef mikinn á huga á að heyra allar hugmyndir um (Forseti hringir.) bætt verklag þegar kemur að meðferð fjárlaga.