144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

störf þingsins.

[11:22]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Eins og flestum er kunnugt hefur EFTA-dómstóllinn birt ráðgefandi álit sitt vegna dómsmáls er varðar lögmæti á útfærslu verðtryggingar á verðtryggðum lánum. Úrskurður EFTA varðar hvort heimilt sé eða ekki að miða við 0% verðbólgu á greiðsluáætlunum. EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri heimilt samkvæmt neytendalánatilskipuninni að miða útreikning verðtryggðra lána við 0% verðbólgu ef þekkt verðbólgustig á lántökudegi væri ekki 0%.

Nú er sú staða komin upp að íslenskir dómstólar verða að ákvarða á grundvelli íslenskra laga hvaða áhrif álitið mun hafa við úrlausn réttarágreinings um verðtrygginguna. Það er ekki ljóst hvenær endanleg niðurstaða dómstóla mun liggja fyrir en mikilvægt er að niðurstaða liggi fyrir sem allra fyrst og þau mál er varða lögmæti verðtryggingar eða útfærslu hennar fái flýtimeðferð í gegnum þingið.

Í þessu samhengi langar mig að minna þingheim á að á sumarþingi árið 2013 samþykktum við lagabreytingar um flýtimeðferð er varðar lán, gengistryggingu og vísitölu. Þessi lög munu falla úr gildi í árslok ef ekkert verður að gert. Mikilvægt er að framlengja þessi lagaákvæði vegna þeirrar stöðu sem komin er upp, sérstaklega þar sem ýmsir aðilar innan fjármálakerfisins hafa stigið fram og talað um að fjöldi dómsmála muni fara í gang vegna ákvæðanna. Einnig hefur verið talað um að einstaklingar þurfi að sækja mál sín sjálfir gagnvart dómstólum.

Vegna þessa langar mig að koma með þá áskorun á nýjan hæstv. innanríkisráðherra að láta það verða eitt af fyrstu verkum sínum að framlengja umrætt lagaákvæði og lengja þannig gildistíma laganna íslenskum neytendum til hagsbóta. Þetta er einfalt mál, varðar eingöngu dagsetningu og ég trúi ekki öðru en að þingheimur leggist á eitt við að koma því í gegn fyrir áramót.