144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:38]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði er styttingin á atvinnuleysistryggingatímabilinu fordæmalaus. Það er með lögum einhliða verið að skerða þennan rétt. Þetta er lág framfærsla fólks sem er búið að eiga lengi við atvinnuleysi að stríða. Þetta fólk þarf að framfæra sér eins og aðrir. Það liggur í augum uppi. Það mun lenda á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og að lokum kannski hjá Tryggingastofnun. Ég held að þessi einhliða ákvörðun jafngildi dálítið stríðsyfirlýsingu við verkalýðshreyfinguna enda er mjög þungt í þeim hljóðið.

Svo vil ég líka segja vegna málsins þar sem þetta er skert að ég hef óskað eftir mati á fjárhagsáhrifum þess á sveitarfélögin. Hvað mun þetta kosta sveitarfélögin? Það er langt síðan ég lagði fram þá fyrirspurn og svar hefur ekki enn borist. Það er eðlilegt að það svar berist áður en við ljúkum afgreiðslu 3. máls (Forseti hringir.) í þinginu.