144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:00]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég skil þetta líka á þennan veg. Það sem gerist í kjölfar hrunsins er skiljanlegt. Tekjustofnar ríkisins höfðu hrunið og þá varð að grípa til ráðstafana. Við getum deilt um það hvort við höfum gengið of langt í niðurskurði í heilbrigðiskerfinu, ég tel að við höfum gert það. En þar er skýringin komin á þessu.

Hitt er langtímaþróun. Ég minni á að í aðdraganda hrunsins virtist það vera markviss pólitísk stefna að skera niður við heilbrigðisþjónustuna, ekki síst Landspítalann. Þá var þessi hugsun uppi að gera bisniss úr þessu. Þess vegna voru sjúkratryggingarnar settar á laggirnar með lögum eins og þau voru og við munum. Það var hugsunin á bak við þetta. Þetta átti að vera svona samkeppnishugsun sem þarna réði.

Ef við lítum á 20 ára tímabil, 15 ára tímabil, tíunda áratuginn, alla vega hálfan, og síðan fram undir hrun og fram á þennan dag, þá er þróunin öll í þessa átt (Forseti hringir.) að meira og meira kemur upp úr vasa sjúklingsins, 20% núna, fimmtungur.