144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:06]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þegar maður er í þeirri stöðu að fjalla um fjárlög enn einu sinni hlýtur maður að velta því fyrir sér að eitthvað sé ekki eins og það á að vera. Þegar ég skoða þessi fjárlög og þegar ég skoðaði fjárlögin í hittið-hittiðfyrra var eitthvað sem mér fannst vera „off“, svo ég sletti. Ég hef því velt því mikið fyrir mér undanfarin ár hvað sé að í kerfunum okkar. Mér finnst þessi fjárlög í raun vera staðfesting á því að við þurfum heildrænt að endurskoða öll kerfin, og ég mun fara ítarlegar í það á eftir.

Mig langar að fara í gegnum það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég horfi á fjárlögin og það er að ég upplifi að ég hafi verið svikin. Ég upplifi það að verið sé að ráðstafa sameiginlegum fjármunum þjóðarinnar á veg sem er hvorki í samræmi við vilja eða væntingar mínar né 90% Íslendinga. Ég upplifi það að verið sé að veikja bæði heilbrigðiskerfið og menntakerfið á þann veg að það getur ekki verið tilviljun hversu veikt það er orðið.

Það sem ég var mjög sátt við og ánægð með hérna áður fyrr var til dæmis að við byggjum í þannig samfélagi að menntun væri ókeypis, hún væri þannig að allir gætu menntað sig óháð fjárhag, að við byggjum í þannig samfélagi að forseti Íslands og ég, sem þá var mjög fátæk, nytum sömu heilbrigðisþjónustu, að það væri þannig að ef ég fengi krabbamein eða einhver ættingi gæti ég fengið alla þá þjónustu og allan þann stuðning sem ég þyrfti án þess að það bitnaði á fjárhag mínum. Þess vegna var ég mjög ánægð með að borga svona háa skatta, mér þótti það fínt, ég var nokkuð sátt við þessa samfélagsgerð.

Svo hef ég verið að uppgötva það, og sérstaklega eftir að ég kom inn á þing fyrir fimm og hálfu ári síðan, að þetta var fullkomin blekking, því að alltaf heyri ég af fleira fólki sem hefur ekki efni á að nýta þá heilbrigðisþjónustu sem við höfum tekið þátt í að byggja upp, alltaf heyri ég af fleira fólki sem getur ekki að stundað nám af því að það er of dýrt. Þetta finnst mér algjör svik og ég er ekki sátt við að borga skatta ef skattarnir fara ekki í það kerfi sem ég held að flestir Íslendingar líti á sem grundvöll þessa samkerfis sem við búum í, að hér sé heilbrigðisþjónusta og menntakerfi sem er borgað með sköttunum okkar. Ég vil að manneskja sem lendir í líkamlegum eða andlegum erfiðleikum geti gengið að því vísu að fá bestu mögulegu þjónustuna.

Við vorum með mjög gott heilbrigðiskerfi miðað við það sem hefur komið sérstaklega skýrt fram hér á undanförnum vikum, þ.e. kerfið er við það að hrynja fullkomlega, og það er mjög alvarlegt mál. Það er mjög alvarlegt mál að við séum komin í þá stöðu að ekki sé hægt að ná samningum við lækna, við erum að missa mjög mikið af fólki sem við höfum öll gert kleift með skattpeningum okkar að mennta sig til þess að það geti síðan tekið þátt í hinu sameiginlega kerfi með því að vera læknar hérlendis. Nú er þetta fólk að fara. Mér finnst það alvarlegt.

Mér finnst það sem er að gerast með læknana og fjölda annarra sem hafa farið frá Íslandi og ekki séð fram á neina framtíð hér vera grafalvarlegt mál. Mér finnst grafalvarlegt mál að þúsundum Íslendinga finnist við vera betur komin í faðmlagi og undir yfirstjórn Norðmanna. Fyrirgefðu, forseti, en ég hef átt heima í Noregi og við eigum ekkert erindi þangað. Sú samfélagsgerð, eða ekki samfélagsgerðin heldur þjóðarsálin passar ekki Íslendingum. Ég hef búið á öllum hinum Norðurlöndunum og sú þjóðarsál sem passar Íslendingum verst er sú norska, við ættum þá frekar að ganga í Finnland.

Mér finnst svo galið að við séum komin á þann stað eftir að hafa barist fyrir því að geta verið frjáls þjóð og óháð þjóð og markað okkur merkilega sögu þar að lútandi að það sé svo ómögulegt og ömurlegt að vera hér, af því að allt er að hrynja, að í staðinn fyrir að beita okkur fyrir því að breyta því ætlum við bara að fara til Noregs.

Í Noregi var hin stórskemmtilega Monty Python-mynd, Life of Brian, bönnuð út af tepruskap. Ef það eru einhverjir Íslendingar sem eru svo teprulegir að þá langi að fara til Noregs, „by all means“ en í guðs bænum, forseti, það á ekki við okkur að ganga í þannig bandalag. Þess vegna vil ég, þegar við erum að ræða fjárlög sem eru einkennandi fyrir það að vera að breyta formgerð samfélagsins, hvetja fólk til þess að kynna sér þessi mál betur. Ég vil að fólk láti okkur vita ef það er ekki ánægt með það sem er að gerast. Það er nú þannig að við þingmenn höfum heyrt í mörgum aðilum, mjög mörgum, sem eru mjög ósáttir við þá stefnu sem hér er. En mig langar að velta því upp hvernig standi á því að fólk sem virðist vera hlynnt allt annarri forgangsröðun og kýs stjórnarflokkana sætti sig við að þeir flokkar sem þeir kusu á þing séu með forgangsröðun sem er ekki í neinu samræmi við væntingar þeirra. Getum við ekki sammælst um það að við sem þjóð eigum að fá að ráða einhverju um þá forgangsröðun?

Að sjálfsögðu hefðum við píratar átt að fara í þá vegferð að fá skoðanakönnun um vilja þjóðarinnar í tengslum við forgangsröðun á skattpeningum. Við hefðum átt að fá skoðanakönnun fram í upphafi fjárlagagerðar. Ég geri mér grein fyrir því að það er kannski ekki fullkomlega pragmatískt að ná því að fá meiri hluta Alþingis til þess að bregðast við vilja þjóðarinnar við lok fjárlagagerðar. En ég held að þetta væri ágætisvegferð sem þingið ætti í raun og veru að standa fyrir, að kalla eftir vilja þjóðarinnar um forgangsröðun í upphafi fjárlagagerðar. Það væru mjög góðar leiðbeiningar um það hvernig við getum ef til vill endurheimt traust á því kerfi sem við búum við.

Kannski er þetta kerfi gengið sér til húðar. Kannski er það veruleikinn sem við erum að glíma við. Kannski er það þannig að við þurfum að endurskoða allan rammann sem hefur verið byggður. Mér finnst hann óskilvirkur og það er ekki aðeins á Alþingi sem vinnubrögðin eru oft stórfurðuleg, háskaleg og ekki skilvirk, það er þannig víða í stjórnsýslu í jafn litlu landi og við búum í. Hér ætti að vera tækifæri, hreint og klárt tækifæri, ef fólk væri tilbúið til þess að sleppa aðeins tökunum á völdum sínum, til þess að endurspegla betur vilja þjóðar.

Nú er það þannig að við búum við það stórfurðulega kerfi að vera ráðin í vinnu sem fulltrúar þjóðarinnar til fjögurra ára og það er nánast alveg sama hvað við stöndum okkur illa í vinnunni, það er ekki hægt að losna við okkur. Mér finnst hvatinn til að standa sig vel, vitandi það, ekkert rosalega mikill. Þegar fólk er á hinum almenna vinnumarkaði þarf það að standa sig vel í vinnunni og endurskoða þau verk sem það hefur unnið. Ef fólk stendur sig mjög illa missir það vinnuna. En við höfum eitthvert kerfi þar sem við höfum heil fjögur ár og síðan segjum við alltaf ef það eru gerð mistök, stórfengleg mistök: Þetta verður lagt í dóm þjóðarinnar í kringum kosningar. Og svo eru ótrúlega mikil óheilindi í kringum kosningar og hreinlega logið um hvað hægt sé að gera. Síðan endar maður í þeirri stöðu, eins og núna, að það liggja fyrir fjárlög sem eru í engu samræmi við þau kosningaloforð sem flokkarnir buðu upp á fyrir kosningar.

Því var lofað í aðdraganda kosninga, og ég man svo vel eftir þessu því að ég var ánægð með það kosningaloforð, þó að ég vissi að það mundi sennilega ekki vera staðið við það, að hlutur öryrkja, þeirra sem eru verst settir, og hlutur ellilífeyrisþega, þeirra sem eru upp á almannatryggingar komnir, yrði bættur því að kjör þeirra voru skert verulega í hruninu. Og það er þannig að skortur á einni krónu er tilfinnanlegur hjá þeim sem á aðeins eina krónu en ekki hjá þeim sem á milljón krónur. Þannig að þeir öryrkjar sem eiga í greiðsluerfiðleikum eða eiga ekki fyrir mat út mánuðinn, og annað fátækt fólk hér á landi, finnur rosalega fyrir því þegar verið er að draga úr ráðstöfunartekjum eða ekki bætt í þær þegar verðlag hækkar. Það finnur rosalega mikið fyrir því og það er ofboðslega brýnt að við gleymum því ekki, að við reynum alltaf að setja okkur í fótspor þeirra.

Það er lögð til hér stórfurðuleg barbabrella. Mér finnst hún mjög skrýtin af því að eitt af því sem Sjálfstæðisflokkurinn segir alltaf í aðdraganda kosninga er: Við ætlum að lækka skatta. Síðan á allt í einu að hækka skatt á því sem maður getur ekki verið án, sem er maturinn, það á að hækka skatt á mat. Og á móti á að taka burt vörugjöld á hlutum eins og klósettum, líkt og sumir þingmenn hafa nefnt, eða ísskápum eða bílum. Það er þannig að sá sem á ekki fyrir mat á heldur ekki fyrir nýjum ísskáp þó að hann þurfi hann. Hann á ekki fyrir nýju klósetti þó að hann þurfi á því að halda. Það er eins og fólk átti sig ekki á því að á meðan við erum að hækka matarskattinn — sem nota bene á ekki aðeins að fara upp í 11% heldur stendur til að hækka hann upp í 14%. Það er rosalega hátt og er fullkomlega óeðlilegt að við séum að hækka skatt á nauðþurftum.

Þetta er svipað og hin stórkostlega hugmynd að hækka komugjöld enn meira sem þýðir að þeir sem eiga ekki fyrir mat eða geta ekki leyst út lyfin sín fara ekki til læknis. Það eru ótrúlega margir Íslendingar sem fara ekki til tannlæknis þótt þeir séu komnir með tannpínu, þótt þeir þyrftu að fara og láta hreinsa tannstein. Það eru mjög margir Íslendingar sem eru í þeim sporum og margir sem ég þekki. Og af einhverjum furðulegum orsökum sem ég skil ekki er munnurinn ekki hluti af líkamanum þegar kemur að því að fá læknisfræðilega þjónustu. Enn furðulegra er að það er hægt að fá styrk fyrir hjálpartækjum nema ef eitthvað er að augunum í manni. Þetta er stórkostlega skrýtið og ég hef aldrei skilið af hverju við látum það yfir okkur ganga.

Ég tíni til þessi atriði af því að mér finnst kerfið okkar fullkomlega brotið og mér finnst aðferðafræðin við til dæmis fjárlög algjörlega út í hött. Við búum við einhvers konar fulltrúalýðræði nema við búum ekki við fulltrúalýðræði heldur meirihlutaræði, þannig að minni hlutinn ræður ákaflega litlu um hvernig fjárlögin verða. Ég man eftir alveg ótrúlega mörgum góðum breytingartillögum, virkilega góðum breytingartillögum sem hefðu gert fjárlögin mun betri, en þeim er alltaf hafnað ef þær eru frá minni hlutanum. Þá hlýtur það að vera þannig að við búum við meirihlutaræði þar sem, við skulum segja 40–45% þjóðarinnar skipta engu máli, því að það er ekki hlustað á fulltrúa þeirra á Alþingi. Hér heldur maður ræður, nú hef ég verið töluvert viðstödd þessar umræður um fjárlög, og það er mjög sjaldgæft að sjá fulltrúa meiri hlutans eiga orðastað við minni hlutann eða hlusta á hann. Þeim er alveg sama. Þeim er alveg skítsama um hvað 40% þjóðarinnar, eða fleiri, vilja. Það er sorglegt. Það er ekki lýðræði, það er meirihlutaræði. Mér finnst það alvarlegt og mér finnst furðulegt að við tölum aldrei um það. Við tölum aldrei um að fulltrúaræðið, eins og það er sett upp í dag, á ekkert skylt við það.

Í sumum löndum, sem við berum okkur oft saman við, er tilhneiging til þess að hafa minnihlutastjórn til þess að tryggja að þeir sem eru fulltrúar og hafa tekið að sér ríkisstjórnarstarfið hlusti á alla. Það er gríðarlega mikilvægt. Það er svolítið fyndið hvernig þetta er alltaf í þessum umræðum, þetta var líka svona hjá síðustu ríkisstjórn. Hún benti á þá sem voru í ríkisstjórninni á undan henni og svo núna er þetta eins. Það kemur ekkert út úr svona umræðum. Það kemur ekkert út úr þeim fyrir hinn almenna borgara. Það var margt mjög gott gert og sumt ekkert svo gott gert á síðasta kjörtímabili en maður horfir upp á það að verið er að taka allt það góða sem var gert í burtu. Ég skil það ekki. Mér finnst þetta algjörlega galið, galin leið til þess að reka samfélag. Ég vildi óska þess að við gætum hætt þessu, þetta er fáránlegt. Það er fáránlegt að vera enn og aftur í þeirri stöðu að leggja töluvert mikið á sig við að koma með breytingar, koma með breytingartillögur sem gætu gert hlutina betri en svo er ekki hlustað á þær út af því að maður er ekki í réttum flokki.

Við erum ekki í fótbolta. Við erum hér til þess að passa upp á hagsmuni þjóðarinnar, hagsmuni allra. Við erum ekki í fótboltaleik og ég neita að taka þátt í kjánalegum fótboltaleik. Ímyndið ykkur ef maður væri að reka fyrirtæki eða heimili og alltaf á fjögra ára fresti mundi maður snúa öllu á hvolf og gleyma öllu því sem maður lærði á liðnum fjórum árunum, bara af því bara. Mér finnst þetta fáránlegt. Eða ef maður væri að ala upp barn og ætlaði að kenna því einn hlut og hann gilti einn daginn og svo næsta dag væri það: Nei, fyrirgefðu, þetta er allt öðruvísi. Gleymdu öllu sem ég kenndi þér í gær, af því að núna er ég komin í hitt liðið. Það er ekki hægt að reka samfélag á þennan hátt. Þetta er kostnaðarsamt, óhagkvæmt og ein ástæða þess, þrátt fyrir að við séum að rétta úr kútnum, að við erum enn á mjög slæmum stað með helstu innviði samfélagsins.

Það er hins vegar ekki af því að síðasta ríkisstjórn gerði aðeins slæma hluti og tók vondar ákvarðanir. Það er vegna of mikils niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu. Ég hef fullan skilning á því að við lentum í hruni og allir tekjustofnar ríkisins hrundu. Það var skorið inn að beini, og ég benti ítrekað á það, og sér í lagi í heilbrigðiskerfinu. En í staðinn fyrir að leiðrétta það og laga þegar betur horfir er ákveðið að halda áfram og núna sér maður inn í beinið, maður sér merginn. Maður veltir fyrir sér hvort þessi forgangsröðun sé hluti af stefnu sem gengur út á það að einkavæða heilbrigðiskerfið. Ég er eiginlega sannfærð um það. Ég hef heyrt hvernig stjórnarliðar, og sér í lagi Sjálfstæðisflokkurinn, hafa talað um þessi mál og mér finnst þetta augljóst og væri í raun og veru sjálfsblekking að halda eitthvað annað.

Ég varð vitni að því hjá síðustu ríkisstjórn að það var mjög mörgum erfitt að þurfa að standa í þessum niðurskurði. Ég er alveg meðvituð um það af því að það er hefðbundið. En það er líka hefðbundið að þegar nýkapítalistar hafa keyrt samfélög í þrot, eins og gerist alltaf, þetta er alveg eins og með hrun peningamarkaðanna, það er kúrfa og þeir fara upp og svo hrynja þeir og svo fara þeir upp og svo hrynja þeir, og ef engu er breytt þá heldur það áfram og það þjáist enginn meira fyrir það en almenningur í þessum samfélögum.

Þetta er nákvæmlega sama munstur þegar kemur að samtímastjórnmálakúrfum. Það er farið á gríðarlegt kókaínfyllerí eða kókaíntúr og fyllerí og svo allt í einu vaknar fólk í þynnku og það er allt búið. Þá koma góðu vinstri flokkarnir og hreinsa upp. Það er ömurlega leiðinlegt starf af því að það er vanþakklátt. Ég held að það væri mjög slæmt ef þetta væri ekki gert, en kannski þurfum við algjörlega að hrynja, alveg niður á botn til þess að geta búið til nýtt kerfi, til þess að geta fengið nýja stjórnarskrá.

Ef við lögum ekki grunnstoðirnar höldum við þessu bulli áfram. Við erum komin á þann stað að það verður ekki hægt að snúa við. Ímyndið ykkur hvað verkfallið núna hefur kostað almenning, sjúklinga mikið. Hversu mikið hafa biðlistarnir lengst og hversu margir fá greiningar á réttum tíma? Það verður mjög erfitt að snúa af þessari vegferð. Við erum að fara niður á einhvern botn sem ég er hrædd við. Ég er mjög ánægð með að hafa tekið þátt í að koma með breytingartillögur sem minni hlutinn á Alþingi lagði fram. Að sjálfsögðu fórum við ekki út í það að búa til heildstæð fjárlög af því að það hefði aldrei verið tekið mark á þeim, við erum mjög ólíkir flokkar þótt við eigum margt sameiginlegt.

Ég er mjög ánægð með að hafa tekið þátt í vinnunni en maður upplifir pínulítið vonleysi gagnvart þessu. Þarna lögðumst við yfir ákveðna þætti, byggða á vinnu fulltrúa minni hlutans í fjárlaganefnd sem höfðu allar forsendur til þess að vita hvar kreppti að eftir að hafa hlustað á hagsmunaaðila úr heilbrigðis- og menntakerfinu og víðs vegar frá, en maður hefur á tilfinningunni að þetta sé eins og að telja sandkorn. Þetta heldur áfram út í hið óendanlega nema við tökum af skarið og breytum kerfinu. Kerfið eins og það er hér á Alþingi virkar ekki. Þetta er bara rugl.

Það eru nokkrir þættir sem ég hef miklar áhyggjur af. Til dæmis er það ráðherraástandið sem hefur verið á þessari ríkisstjórn. Maður veit nánast aldrei hvaða ráðherra er með hvað þegar kemur að dómsmálum, af því að það voru ekkert öll málefni sem tengjast dómsmálum færð frá innanríkisráðuneytinu. Það er sem betur fer kominn nýr ráðherra og ég vona að sá ráðherra taki á þessum málum af mikilli festu og einurð og að þetta ástand lagist. En það til að mynda gleymdist að setja inn lið, af því að það var enginn ráðherra að fylgja því eftir, sem var búið að samþykkja og verður að vinna á fjárlögum, sem lýtur að hælisleitendum og er framlag til Útlendingastofnunar. Þetta eru heilar 50 milljónir sem gleymdust. Síðan skilst mér að það gangi frekar erfiðlega að fá fjárlaganefnd til þess að bregðast við þeim afglöpum.

Mér finnst svona vinnulag ekki í lagi. Nú fékk þessi ríkisstjórn miklu lengri tíma til að undirbúa fjárlögin og vinna þau í þinginu. Ég verð að éta það ofan í mig en ég var mjög á því að nauðsynlegt væri að endurnýja allt á Alþingi. Ég finn hins vegar fyrir því að hið mikla reynsluleysi hérna háir okkur pínulítið. Maður verður að treysta fullkomlega á embættismenn og það er ekki réttlátt gagnvart þeim. Svo er það líka þannig, og var líka þannig síðast, að stjórnarþingmenn fá miklu meiri stuðning við vinnslu á málefnum sem koma frá ríkisstjórninni. Þannig að þegar talað er um að þingið sé einhvers konar stimpilstofnun þá er það réttlætanlegt að einhverju leyti. Sem betur fer höfum við þingmenn á þessu kjörtímabili og síðasta verið að færa meiri ábyrgð inn á Alþingi, en því þarf að fylgja meiri stuðningur við þá vinnu og ábyrgð sem við höfum tekið að okkur.

Þingmenn hafa talað á undan mér og það hafa verið margar feikilega góðar ræður um fjárlögin frá minni hlutanum þar sem hefur verið farið ítarlega yfir það sem er að í þessum fjárlögum. Ég vil taka undir áhyggjur af læknisþjónustunni, ég er með miklar áhyggjur af RÚV, ég er með áhyggjur af viðvarandi fátækt hér. Þær eru óhugnanlegar tölurnar um hversu mörg börn hérlendis búa við fátækt. Við verðum að taka á því, við verðum að finna lausnir á þessu.

Mér finnst þetta alvarlegt af því að það eru svo fáir sem skilja þetta nema hafa upplifað það. Það að stytta atvinnuleysistímann í tvö og hálft ár úr þremur er mjög slæmt. Þarna er verið að velta ábyrgð og fjárútlátum til sveitarfélaganna, en það er svo að þegar maður er í vinnu þá borgar maður í Atvinnuleysistryggingasjóð þannig að maður er í raun og veru búinn að verja sig ef maður verður fyrir því áfalli að fá ekki vinnu.

Nú erum við í þeirri stöðu sem þjóð að allt í einu er kominn hópur af fólki sem býr við langtímaatvinnuleysi. Í staðinn fyrir að skera niður öryggisnet fólks og búa til óöryggi — það er nefnilega þannig að þegar þú ert á atvinnuleysisbótum þá er miðað við þig. Þú ert einstaklingur og átt þín réttindi. Ef þú ferð til Félagsþjónustunnar eru miklar líkur á því að ef þú ert í sambúð eða giftur eða átt íbúð fáir þú engar bætur. Okkur ber skylda til að veita fólki grunnframfærslu, en ég veit að það eru miklar skerðingar þar á. Ég þekki fólk sem hefur lent í hrakningum eins og að missa vinnu eða annað og gengið illa, kannski veikst eða eitthvað slíkt, það er sett í þá stöðu að það er ekki lengur einstaklingur. Það á ekki lengur réttindi sem einstaklingur til framfærslu. Það þarf að treysta á maka sinn til þess að framfleyta sér, og þarna er tekin frá fólki ákveðin sjálfsvirðing sem kristallast í þeim grundvallarmannréttindum sem eru í núgildandi stjórnarskrá.

Mér finnst þetta alvarleg aðför og mér finnst alvarlegt að þeim sem dettur í hug að þarna megi spara viti ekki hvað þeir eru að leggja á fólk. Það vita aðeins þeir sem hafa verið í þessari stöðu. Og nógu er kerfið erfitt þegar maður glímir við að fá réttmæta þjónustu. Kerfið er oft þannig, og það er enn ein ástæðan fyrir því að ég er mikið með því að endurskoða kerfin okkar hér í heild og viðhorf margra starfsmanna, ekki allra, til þeirra sem leita að þjónustu.

Nú er verið að skera niður hjá umboðsmanni skuldara, sérstakur saksóknari er skorinn niður o.s.frv. Þetta eru alls konar grunnþættir, sérstaklega er það þannig með t.d. umboðsmann skuldara að það tók svolítinn tíma að búa til gott verklag og það má segja að undanfarin tvö ár hafi þessi mikli kúfur þar minnkað og þá á að skera svo mikið niður að það verður aftur þannig að fólk þarf að bíða í óhemju tíma eftir þjónustu. Þetta er líka alvarlegt mál.

Okkur sem hér vinnum, sem erum hér í umboði þjóðarinnar, ber að passa upp á okkar minnstu bræður og systur. Það er eitt af því sem skiptir grundvallarmáli fyrir einstakling í samfélagi, að láta sig aðra varða. Þeir sem sækjast eftir því að fá að vera fulltrúar fyrir almenning hljóta líka að sækjast eftir því að gera það. Þegar ég horfi á þessi fjárlög, sem og mörg önnur fjárlög, finnst mér eins og þá grundvallarhugsun vanti inn í. Ég virði viðleitnina á sumum sviðum en það vantar samt grundvallarskilning á aðstöðu þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu, hvort heldur það eru sjúklingar, gamalt fólk, fátækt fólk, fátæk börn, atvinnulausir eða þeir sem verða fyrir skakkaföllum í lífinu.

Fólk sem er í þessari stöðu hefur tekið þátt í að skapa til samfélagið sem við búum í. Ég veit það að amma mín og afi heitinn í báðar ættir lögðu alveg ótrúlega hart að sér. Þau unnu eins og skepnur og lögðu mikið á sig til þess að hægt væri að búa til undirstöður samfélagsins sem við búum í. Og við höfum fengið allt upp í hendurnar, hitaveitukerfið og alls konar aðra hluti. Þegar afi og amma voru upp á sitt besta voru engin verkalýðsfélög né annað slíkt. Ég er að horfa á þá vinnu, allan þennan grunn einhvern veginn leysast upp. Hann var búinn til með blóði, svita og tárum. Það vitum við sem áttum ættmenni sem létu sig samfélagið varða. Mér finnst þetta vera vanvirðing við fólkið sem sleit sér út fyrir okkur, fyrir framtíðina, því að þeim var umhugað um að enginn þyrfti að upplifa það sem þau upplifðu. Þau höfðu framtíðarsýn.

Hvar er framtíðarsýnin í þessum fjárlögum? Það er eitt, og ég gagnrýndi það líka hjá síðustu ríkisstjórn, og það er að það skortir mikið á að við förum að tala um það hvernig framtíð við Íslendingar ætlum að búa við. Við getum ekki búið í kerfi sem er eingöngu hugsað til fjögurra ára í senn. Þannig er ekki gangur lífsins. Þetta er eins og að skera alltaf niður tré þegar það hefur vaxið í fjögur ár. Það er ekki sjálfbært og það er engin skynsemi í því.

Mér finnst ágætt að horfa á fjárlögin og það hvetur mig enn og aftur til þess að fara í þá mikilvægu vinnu sem ég vona að sem flestir séu tilbúnir til þess að leggja á sig, og það er að byrja að huga að og vinna að þeim ramma sem við viljum hafa um framtíðina. Hluta af þeim ramma er að finna í nýrri stjórnarskrá og það þarf að sjálfsögðu að fínpússa hann eitthvað, en ég ætla að vona að við lítum ekki svo á að sú stjórnarskrá eigi að vera óhreyfð í 70 ár eða eitthvað svoleiðis. Stjórnarskrá er náttúrlega samfélagssáttmáli um það hvernig þjóð við viljum vera og eftir hvaða leikreglum við viljum fara.

Ég vil líka gera að umfjöllunarefni ótta minn varðandi það sem hefur komið upp hérna undanfarið um rammann. Það er enn eitt sem fólk lagði mikið á sig, miklar fórnir, til að ná utan um. Ég vona að þessi ríkisstjórn rati ekki í þá ógæfu að rekja það mikla verk upp. Ég upplifi það sem aðför að öllu því sem við eigum sameiginlega. Það er aðför að Ríkisútvarpinu og það er, eins og áður hefur komið fram, aðför að grunnstoðunum og aðför að því að geta borðað, sem er náttúrlega mjög spes.

Ég hvet þá sem eru að fylgjast með þessum umræðum, og ég veit að það eru einhverjir, sem betur fer, að skoða tillögur sem hafa komið um breytingar, sameiginlegar tillögur frá minni hlutanum, eða stjórnarandstöðunni eða hvað fólk vill kalla það, sem eru mjög mikilvægar. Til dæmis er hér tillaga um — það virðist hafa gleymst að setja inn á fjárlög peninga til lögreglu og ríkissaksóknara varðandi þolendur kynferðisofbeldis.

Hún virðist ekki skipta miklu máli þessi merkilega sóknaráætlun sem gekk út á það að færa völd og ábyrgð og tilfinningu fyrir samfélagi til sveitarfélaganna.

Uppáhaldsatvinnuvegirnir mínir lúta að skapandi geiranum og merkilegt nokk sá ég frábæra skýrslu sem var tekin saman um hvað það skilar miklu í ríkiskassann, það er góð fjárfesting. Það er verulega skorið niður og þessar greinar enn og aftur settar í óvissu eftir að reglum um þessa sjóði var breytt.

Ég mundi, ef ég mætti ráða einhverju, vilja hvetja Framsóknarflokkinn, sem fer með forustu í fjárlaganefnd, til þess að tryggja það að komugjöld verði felld niður.

Ég vil líka vekja athygli á gríðarlega alvarlegum hlut sem er mikill niðurskurður sem hefur átt sér stað og hefur bitnað á geðheilbrigði barna og unglinga. Nú hafa þingmenn talað um lýðheilsu. Þau börn og unglingar sem fá ekki nauðsynlegar læknisfræðilegar greiningar á því sem hrjáir þau verða bara veikari og biðlistarnir á BUGL eru skelfilega langir. Ég vil í fullri einlægni, það er því miður enginn sjálfstæðismaður hérna inni en það er einn framsóknarmaður, biðja um að BUGL fái nauðsynlega fjárveitingu til þess að geta stytt biðlistana. Geðheilbrigðismál barna og unglinga skipta samfélag okkar miklu máli. Það eru líka miklir biðlistar í Brúarskóla. Lífsgæði þeirra barna sem fá ekki úrræði eiga að skipta okkur máli. Það hefur í raun og veru ekkert með fjárhag foreldra að gera heldur það sem við látum frá okkur í fjárlögum til stofnana sem skipta svo miklu máli. Hvað viðkemur BUGL hefur þetta verið langt ferli og ég vona að formaður fjárlaganefndar taki tillit til þess.

Nú fyrst er hv. formaður fjárlaganefndar kominn í salinn. Þá langar mig að ítreka að svo virðist sem það hafi hreinlega gleymst að setja inn á fjárlög 50 millj. kr. til Útlendingastofnunar sem lúta að því að skera niður biðlista hjá hælisleitendum. Ég tel mjög mikilvægt að setja það aftur í fjárlög eða setja það í fjárlög ef það hefur gleymst.

Síðan finnst mér líka mikilvægt að við skerum ekki niður útvarpsgjaldið. Ég er alveg tilbúin til að borga minn skatt þar, það er mikilvægt að hafa sterkan almannafjölmiðil sem sinnir þeim mikilvægu hlutverkum sem honum hefur verið falið að sinna.

Ég er því miður búin með tímann minn. Mig langaði að tala miklu meira. Ég vona að það verði hlustað á einhverja af þeim tillögum sem minni hlutinn hefur sameinast um að setja í forgang.