144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Ég held að þetta sé mál sem við munum halda áfram að þurfa að ræða í framtíðinni. Mig langar að nota mitt síðara andsvar til að ræða aðeins um annan hóp sem stendur höllum fæti í samfélagi okkar og fær ekki einu sinni að komast inn í okkar samfélag og það eru hælisleitendur.

Ég hef svolitlar áhyggjur af þessum stytta tíma sem á að fara í að vinna umsóknirnar og minnkaða fjármagni sem Útlendingastofnun fær. Ég hef áhyggjur af því að þetta verði mögulega notað til þess að ýta fólki hraðar í burtu í stað þess að vinna málin þess hraðar og hleypa fólki hraðar inn til okkar sem mín skoðun er að við þurfum að gera. Deilir þingmaðurinn þessum áhyggjum mínum að hér gætum við farið út af réttri braut?