144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:28]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu sem hefði verið enn betri ef hann hefði fengið að halda hana óslitna, svo að ég leggi það nú aðeins til málanna hér. Það er margt sem ég gæti spurt hv. þingmann um og hann ræddi sérstaklega heilbrigðis- og menntamálin, ekki síst úti í hinum dreifðu byggðum.

Mig langar aðeins að spyrja hann út í Ríkisútvarpið sem hann nefndi líka lítillega í ræðu sinni. Nú liggur það fyrir að stjórn Ríkisútvarpsins hefur sent frá sér ályktun um að hún telji mjög mikilvægt að útvarpsgjaldið verði ekki lækkað, eins og ríkisstjórnin hefur lagt til, heldur fái að haldast óbreytt og renna óskert til Ríkisútvarpsins, meðal annars til að hægt sé að fylgja eftir nýrri framtíðarsýn fyrir Ríkisútvarpið. Þar eru lögð fram fimm meginmarkmið og eitt þeirra er að efla þjónustu almannaútvarpsins úti um land sem vissulega hefur mátt sæta niðurskurði í niðurskurði undanfarinna ára.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins um þetta; (Forseti hringir.) Hversu mikilvægt hann telur að almannaútvarpið geti sinnt hlutverki sínu betur úti um land?