144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:21]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Það blundar skáld í hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Hugsanlega er hann svo ungur að hann man ekki hvenær þessir atburðir gerðust. Þetta var á meðan ég var í annarri alþýðufylkingu og það var 1987 sem Jón Baldvin Hannibalsson sagði þetta.

Nú er það svo að enginn er alfullkominn og sumum verða jafnvel á mistök. Það þekkjum við báðir, ég og hv. þingmaður. Okkur hefur stundum skjöplast. Í þessu tilviki er það algjörlega ljóst að hreyfing jafnaðarmanna, þegar hún gerði upp þessi mál, leit svo á að þetta hefðu verið mistök.

Þegar Samfylkingin var stofnuð árið 2000 var þetta eitt af þeim fyrstu málum sem hún braut til mergjar og gerði upp. Það var í framhaldi af því sem gerð var gjörbreyting á því sem hafði verið stefna tiltekins hluta Alþýðuflokksins. Út frá þeirri vinnu lagði ég á sínum tíma fram frumvarp um lækkun matarskatts sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson samþykkti með atkvæði sínu. Hann var þá sammála því að það væru of miklar álögur á byrðar fátæks fólks að láta brýnustu nauðsynjar sæta sama skatti og annað. (Forseti hringir.) Þá var hann samþykkur því.

Hvað hefur breyst, (Forseti hringir.) hv. þingmaður?