144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:00]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Við deilum ekkert um að gera þarf meira í þágu heilbrigðiskerfisins alls. Og á sama tíma og við erum að snúa við hallarekstri og þurfum að horfa á gríðarlegar skuldir ríkissjóðs, þ.e. gríðarlega vaxtabyrði sem þarf að ná tökum á, er sannarlega verið að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins og við deilum ekkert um það. Þeir peningar sem við finnum þurfa að fara þangað. En það er þannig að 50 milljarðar kr. fara í Landspítalann sem er meira en áður. Það hefur aldrei áður verið sett jafn mikið í Landspítalann.

Í breytingartillögunum núna er sannarlega verið að reyna að koma til móts við heilbrigðiskerfið. Auðvitað er erfitt að ræða þetta við þær kringumstæður sem hér eru, vandinn er grafalvarlegur og það þarf að vinna að því að leysa læknadeiluna.

Ég hef rætt áður úr ræðustól Alþingis vísitölu sem bendir til að mikilvægt er að horfa til samspils á milli félagslegra þátta og hagvaxtar. Það einkennir samfélag eins og okkar að þegar við erum að koma út úr þvílíkum niðurskurði og kreppu þá vilja allir þjóðfélagshópar ná hratt til baka. Það mun taka einhvern tíma og þess vegna segi ég að það þurfi að ná einhverju jafnvægi þarna á milli vegna þess að við erum líka að horfa á öll aðildarfélög Alþýðusambandsins sem eiga eftir að fara í kjarasamninga. Þetta er því ekki alveg svona einfalt en við munum þó reyna.