144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárþörf heilbrigðisþjónustu.

[13:56]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að tala um heilbrigðismálin, halda áfram að tala um óstöðugleika og óvissu í heilbrigðismálum. Ég held að allir séu orðnir sammála um að við þurfum að byggja nýjan Landspítala og það er gott að sett var fé í hönnun á nýrri byggingu en við erum enn ekki búin að fjármagna spítalann. Maður fær kannski á tilfinninguna þegar svona aðgerð kemur inn á milli umræðna að stefna stjórnvalda í málaflokknum sé ekkert allt of skýr. Við vitum að heilbrigðisstofnanir víða um land eru í mikilli fjárþörf, við höfum rætt í þinginu um geðheilbrigðismál barna og unglinga og þar þurfum við að gera miklu betur, þar eru allt of langir biðlistar og aðgengi að þjónustu takmarkað. Hæstv. ráðherra veit eins og ég að aðstæður á geðheilbrigðisdeildinni á Sjúkrahúsinu á Akureyri eru til skammar. Landlæknisembættið tók þær út, gerði skýrslu árið 2012 og þar segir orðrétt, með leyfi forseta: „Aðstaðan á legudeild geðdeildar er óviðunandi og óforsvaranleg til lengri tíma litið.“

Það þarf að finna lausn á því. Við vitum að læknar eru í verkfalli og það er alvarleg staða. Eins og komið hefur fram er það kannski ekki okkar þingmanna að leysa úr þeirri kjarabaráttu en vissulega setur það samt heilbrigðiskerfið í uppnám. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann taki ekki undir með mér um að fjárþörfin er mjög brýn. Þótt aðeins hafi verið bætt í eftir óhjákvæmilegan niðurskurð síðustu ára þyrftum við að geta sett meira fjármagn í málaflokkinn. Annars getur kostnaður í raun orðið meiri til lengri tíma litið ef við erum að spara núna.