144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

hugmyndir um útgönguskatt.

[14:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nú eru að verða þrjú ár síðan ég flutti fyrir hönd meiri hlutans í efnahags- og viðskiptanefnd frumvarp til laga sem felldi slitabú föllnu bankanna undir gjaldeyrishöftin. Þetta hefur skapað okkur Íslendingum gríðarlega mikilvæga stöðu í samningum við kröfuhafa. Nú hefur ríkisstjórnin unnið að þessum málum í hartnær tvö ár. Þetta er stærsta hagsmunamál þjóðarinnar og ég verð að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvað er eiginlega að frétta af málinu?

Ef ég les Morgunblaðið virðist það vera, eftir nærri tveggja ára starf, að ríkisstjórnin hafi engum samningum náð við kröfuhafa, engar áætlanir haft uppi um það og sé nú einvörðungu með í höndunum sex ára gamlar hugmyndir um útgönguskatt.

Ég segi við hæstv. fjármálaráðherra: Ef það eina sem ríkisstjórnin, eftir nærri tveggja ára starf, hefur í höndunum, til að semja um þessi stóru mál og uppgjör þeirra, eru sex ára gamlar hugmyndir um útgönguskatt hvers vegna er að minnsta kosti ekki komin fram útfærsla? Það skiptir auðvitað miklu máli með hvaða hætti slíkar hugmyndir eru útfærðar. Lausafréttir af því á forsíðu Morgunblaðsins að á þeim sé von gera auðvitað ekki annað en að skapa óvissu um stöðu efnahagsmála á Íslandi, óvissu um framtíðina. Við þurfum síst á meiri óvissu að halda hér í landinu.

Útgönguskattur er í eðli sínu ekki annað en gjaldeyrishöft. Hann er settur á til að halda fjármunum inni í landinu. Í sex ár höfum við búið við gjaldeyrishöft. Er það hugmyndin að við búum síðan í 5 ár eða 10 ár eða 15 ár við útgönguskatt? Hvernig er það með lífeyrissjóðina okkar, eiga þeir að vera undir þessu? Eiga þeir ekki að fá að fara fyrstir hér út úr höftum, sparifé almennings? Eða þurfa þeir að bíða með kröfuhöfunum eftir því að úr þessu leysist?