144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:07]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það vantar mikið fé í heilbrigðiskerfið. Það vantar alla vega fé til þess að sinna nauðsynlegri þjónustu. Samkvæmt tölum sem ég hef fengið frá forsvarsmönnum heilbrigðisstofnana og spítala um land allt þá vantar rúma 3 milljarða. Við stöndum frammi fyrir því að það eru skatttekjur sem við innheimtum ekki en væri klárlega sanngjarnt og skilvirkt að innheimta, og skilvirkni er nú eitt af leiðarljósum skattatillagna þessarar ríkisstjórnar.

Ég sendi rétt í þessu breytingartillögu á þingmenn og spurði hvort þeir hefðu áhuga á að vera á henni. Í breytingartillögunni er lagt til að útleiga veiðiréttar og sala veiðileyfa í ám og vötnum njóti ekki lengur undanþágu frá virðisaukaskatti. Skattstofninn er tæpir 2 milljarðar kr. og eins og ég sagði áðan er það skattstefna ríkisstjórnarinnar að gera skattkerfið skilvirkara, meðal annars með því að afnema nú fyrir jól ýmsar undanþágur í virðisaukaskatti, sér í lagi fyrir ferðaþjónustuna, það er ýmislegt sem hefur verið undanþegið virðisaukaskatti en nýtur þeirrar undanþágu ekki lengur.

Það var alveg skýrt, í máli hæstv. fjármálaráðherra í 1. umr. við fjárlögin, sem við ræðum núna, að þetta væri eitt af leiðarljósunum. Honum fannst ekki skynsamlegt að hafa matvæli undanþegin virðisaukaskatti vegna þess að undanþágur gera virðisaukaskattskerfið óskilvirkt. Ef ekki má hafa matvæli undanþegin virðisaukaskatti sökum þess að það geri kerfið óskilvirkt, hvers vegna að halda áfram í það að hafa laxveiði undanþegna virðisaukaskatti?

Hingað til hefur ríkisskattstjóri álitið svo að veiðileyfi með fast gjald óháð veiðifangi skuli flokka sem fasteignaleigu og því sé það undanþegið virðisaukaskatti. En ef hærra gjald er greitt fyrir hvern fisk, þ.e. þú greiðir hærra gjald eftir því hve marga fiska þú veiðir, þá skal greiddur virðisaukaskattur af veiðileyfinu. Í þessu samhengi er hægt að sjá álit ríkisskattstjóra frá 19. febrúar 1990 sem ég fékk sent í dag frá stofnuninni.

Með þessari breytingartillögu segir löggjafinn að þó að líta megi á veiðileyfi, eins og með útleigu hótelherbergja, sem fasteignaleigu, þá er hvort tveggja virðisaukaskattsskylt.

Ekki er hægt að segja að ekki séu til meiri peningar í heilbrigðiskerfið á sama tíma og stjórnvöld og þingmenn vanrækja að afnema virðisaukaskattsundanþágu á laxveiði og sækja þannig bæði sanngjarnt og skilvirkt skattfé.

Þessi tillaga gerir breytingu við 8. lið 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Ef ég les hvernig sá liður hljómar og bæti svo við því sem breytingartillagan mundi setja inn þá hljóðar 8. liður 2. gr. laga um virðisaukaskatt svona, með leyfi forseta:

„Fasteignaleiga og útleiga bifreiðastæða. Útleiga hótel- og gistiherbergja og útleiga tjaldstæða er þó skattskyld, svo og önnur gistiþjónusta þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar. Sama gildir um sölu á aðstöðu fyrir veitingar og samkomur þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar.“

Við þetta mundi þá bætast með breytingartillögunni:

„Þá er útleiga veiðiréttar skattskyld, svo og sala veiðileyfa þegar um er að ræða fast gjald, óháð veiðifeng.“

Þetta mundi koma inn. Þannig að rétt eins og að útleiga á hótelherbergjum — þegar ekki er verið að tala um fasteignaleigu í rauninni; jú, það má alveg segja að með því að leigja út hótelherbergi sé verið að leigja út fasteign, en samkvæmt skattalögum er verið að leigja út þjónustu þannig að ekki skal lögum samkvæmt líta á útleigu á hótelum og gistiherbergjum og tjaldstæðum og slíku sem fasteignaleigu, það skal alla vega ekki líta á það sem fasteignaleigu í skilningi virðisaukaskatts. Þetta er undanskilið, þ.e. þetta er ekki undanskilið virðisaukaskatti, það fær ekki undanþáguna. Það sama mundi í þessu tilfelli eiga við þegar sagt er að útleiga veiðiréttar sé skattskyld, svo og sala veiðileyfa þegar um sé að ræða fast gjald, óháð veiðifeng. — Hvað er fast gjald óháð veiðifeng?

Hér er skjal sem ég fékk frá ríkisskattstjóraembættinu í dag — þetta er titlað frá gjaldadeild og dagsetningin er 19. febrúar 1990, tilvísun 2490. Þar segir:

„Efni: Virðisaukaskattur og veiðileyfi.

Fjármálaráðuneytið hefur sent embætti ríkisskattstjóra til afgreiðslu erindi yðar, dagsett 23. nóvember síðastliðinn, varðandi virðisaukaskatt á veiðileyfi. Í erindinu er farið fram á staðfestingu þess að jafnt lax- og silungaveiðileyfi vegna veiði í ám og vötnum verði undanþegin virðisaukaskatti, svo og veiði á eldislaxi sem sleppt hefur verið í þar til gerðar tjarnir.

Í framhaldsbréfi, dagsettu 6. febrúar síðastliðinn, segir að sú regla hafi gilt að greitt sé ákveðið verð fyrir veiðileyfi í tjörnum og lónum. Það gildi fyrir ákveðið tímabili, t.d. hálfan til einn dag. Einnig sé greitt ákveðið gjald fyrir hvern veiddan fisk. Þannig hafa aflaklær greitt hærra gjald (fleiri fiskar) en þeir sem minna hafa veitt.

Til svars erindinu skal tekið fram að samkvæmt 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 er fasteignaleiga undanþegin virðisaukaskatti. Endurgjald fyrir veiðirétt fellur hér undir, hvort sem um er að ræða sölu lax- og silungaveiðileyfa, enda sé það fast gjald óháð veiðifeng. Sé greiðsla tengd því hversu mikið veiðist verður að teljast að um sé að ræða virðisaukaskattsskylda vörusölu (sala á fiski).

Virðingarfyllst,

Fyrir hönd ríkisskattstjóra.“

Með þessari breytingartillögu er verið að taka af allan vafa og gera það alveg skýrt að þó að ríkisskattstjóri eða skattyfirvöld líti á veiðileyfi sem fasteignaleigu skuli samt sem áður, rétt eins og með hótelherbergi, þessi veiðileyfi ekki vera undanskilin virðisaukaskatti.

Þá langar mig að endurtaka það sem ég hef mjög oft sagt hér áður; að leggja skuli skattfé til verkefnis sem séu brýn og áríðandi og þar var fyrst nefnd örugg heilbrigðisþjónusta. Þetta var ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Nú stöndum við frammi fyrir því að það á bara að bæta 1 milljarði við, sem er 60% af því sem Landspítalinn segist þurfa, og enn vantar rúma 2 milljarða í heilbrigðisstofnanir og spítala á landsbyggðinni og lítið gefið í þar. Læknar eru í fyrsta skipti í sögu landsins í verkfalli. Sérfræðingarnir sem skiluðu sér einu sinni 80% heim skila sér illa og þegar þeir skila sér, eins og taugasérfræðingur sem segist ætla að segja upp í dag ef ekki verði samið, þeir hafa verið hér í tvö til fjögur ár og fara aftur út. Það er nákvæmlega þetta sem við stöndum frammi fyrir, sérfræðingarnir skila sér illa heim. Jafnvel þegar þeir koma þá fara þeir aftur út. Þetta er ástandið.

Heilbrigðiskerfið er ekki lengur öruggt ef við setjum ekki meiri fjármuni í það eða forgangsröðum meiri fjármunum í það. Þetta eru lágar tölur sem mundu skila sér úr því að hætta að veita laxveiðiundanþágu frá virðisaukaskatti en það sýnir ákveðna viðleitni. Það er ekki hægt að segja að ekki séu til peningar í heilbrigðiskerfið þegar 2 milljarða kr. skattstofn er undanskilinn þó að hann sé sanngjarn og uppfylli algjörlega stefnu ríkisstjórnarinnar um það að vera skilvirkur.