144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:20]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er sjálfsagt að taka undir það sem hér er sagt, það er náttúrlega stórundarlegt að hæstv. ráðherrar hafi ekki sést hér. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi að mennta- og menningarmálaráðherra ætti að vera hér út af Ríkisútvarpinu en einnig út af því sem er að gerast í menntamálunum.

Ég tel að það sé mjög slæmt að þessir annars ágætu menn skuli ekki sjá sóma sinn í því að vera við þessa umræðu, að minnsta kosti að einhverju leyti. Ég held að óhætt sé að taka undir það að það greiði ekki fyrir umræðunni að þeir skuli ekki sýna sig.