144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:25]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa spurningu og vísunina til Bretlands, mér finnst hún athyglisverð. Þar eins og hér eru í ríkisstjórn flokkar sem ekki setja samfélagsleg gildi í öndvegi. Þar eins og hér eru í forustu tveir ungir menn af stöndugu heimili, svo að ekki sé meira sagt, en svo að ég segi það forustumönnum vorrar ríkisstjórnar til afbötunar eru þeir eins og sigggrónir erfiðisvinnumenn í samanburði við þá [Hlátur í þingsal.] menn sem leiða ríkisstjórnina í Bretlandi. [Hlátur í þingsal.]

Þeir ágætu auðlaukar fundu það nú samt upp hjá sér að segja strax í upphafi sinnar heiftarlegu niðurskurðartíðar að einn þátt ríkisrekstrarins ætluðu þeir ekki að snerta; það væri þróunarsamvinnan. Þeir boðuðu 40% niðurskurð ríkisútgjalda, eru að boða enn meira á næsta kjörtímabili. Þeir hafa boðað þannig veikingu á ríkiskerfinu breska að óháðir greiningaraðilar telja að í reynd verði um óþekkjanlegt ríkiskerfi að ræða gangi áætlanirnar eftir en þeir hafa ekki snert á þróunarsamvinnunni. Ég held að þarna sé eitthvert fordæmi sem okkar ágæta ríkisstjórn ætti að líta til.

Það er mjög sérstakt að aldrei sé hægt að finna svigrúm til að styðja við þróunarsamvinnu, styðja við það að skapa jöfn tækifæri í heiminum, vegna þess að þetta er fjárfesting í velsæld okkar. Þetta er fjárfesting í minni innflytjendastraumi. Þetta er fjárfesting í betra umhverfi, (Forseti hringir.) minni útblæstri gróðurhúsalofttegunda og þannig mætti lengi telja.