144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Með fjárlagafrumvarpinu leggur ríkisstjórnin meginlínurnar í stefnu sinni og þær eru skýrar, það er verið að rýra tekjustofna ríkisins og þar með samfélagsins alls, það er stefnt að því að keyra niður útgjöld til velferðarmála sem hlutföll af vergri landsframleiðslu og út af standa stórar ákvarðanir illa ígrundaðar á borð við þær að loka framhaldsskólanum fyrir nemendur yfir 25 ára aldri, á borð við þær að auka hér greiðsluþátttöku sjúklinga í gegnum lyfjakostnað og hækkandi komugjöld og síðast en ekki síst að gera Ríkisútvarpinu ókleift að standa undir sínum lögbundnu skyldum með því beinlínis að fara í þá aðgerð að lækka útvarpsgjaldið þannig að Ríkisútvarpið geti ekki staðið undir lögbundnu skyldum sínum.

Virðulegi forseti. Þetta er stefnuplagg ríkisstjórnarinnar. Margt í því er ekki í takt við samþykkta stefnu og nægir þar að nefna samþykktar ályktanir hér á þingi á borð við þróunarsamvinnu og annað. Margt af því er ekki heldur í takt við orð hæstvirtra ráðherra um hvert þeir vilji fara, þannig að ég tel margt í þessu frumvarpi illa ígrundað og ekki í þágu almannahagsmuna.