144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:45]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við í minni hlutanum höfum gagnrýnt harðlega þá stefnu sem birtist í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2015 og breytingartillögunum sem eru lagðar fram hér og eru til afgreiðslu. Hér er boðuð aukin greiðsluþátttaka í heilbrigðiskerfinu, fjöldatakmarkanir í framhaldsskólum og það er lögð fram tillaga um að skerða réttindi langtímaatvinnulausra, svo eitthvað sé nefnt. Síðan fær Ríkisútvarpið einnig illa meðferð.

Þetta er ekki gert í nauðvörn til að verja ríkissjóð falli heldur er þetta gert meðan verið er að afsala sér tekjum af þeim sem vel eru aflögufærir.

Við í minni hlutanum leggjum fram tillögur sem við vonumst til að verði samþykktar en ef ekki að þá verði þær teknar til jákvæðrar skoðunar í hv. fjárlaganefnd og við félagarnir þar, sem náum nú ágætissamstarfi á köflum, getum sett fram góða tillögu sem sátt er um fyrir 3. umr.