144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:49]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með þeim sem hér hafa talað. Af því að hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson minntist áðan á safnliði þá er það akkúrat það sem er hér að gerast þegar á að fara að steypa mörgum samningum inn í sóknaráætlanaformið sem allar sveitarstjórnir sem hafa komið á fund fjárlaganefndar hafa kallað eftir og sagt að sé gott verkefni og óskað eftir að fái að halda sér óbreytt. Þessir sveitarstjórnarmenn vilja ekki að menningar- og vaxtarsamningar fari þarna undir enda höfðu menn áhyggjur af því að þegar safnliðirnir fóru í ráðuneytin eða annað að þeim fylgdi ekki eins mikið fjármagn eða eftirfylgni með því hvað fór þangað inn. Þetta er heldur ekki til þess fallið að vera opið og gegnsætt og auka fjármuni. Nú eru 100 milljónir settar í þetta, en það er ekki verið að bæta menningarsamningum og vaxtarsamningum til viðbótar. Það væri líka áhugavert að vita hver staða þeirra verður um áramótin því að hún var ekki góð í fyrra.