144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Svo gætu menn líka náð samkomulagi í ákveðinni kjaradeilu sem gæti kostað mjög mikið og þá er spurning hvort það eigi til dæmis að vera afturvirkt eins og menn hafa verið að tala um, að menn fái leiðréttingu aftur í tímann. En þá er ekki hægt að greiða það úr ríkissjóði af því að ekki er búið að ákveða það í fjárlögum eða fjáraukalögum. Þá verða menn einhvern veginn að fara á svig við þær reglur sem mér finnst slæmt.

En svo er ekkert sem bannar að fjáraukalögin séu fleiri en ein. Það væri hægt að setja fjáraukalög reglulega þegar búið er að auka útgjöld ríkissjóðs, t.d. með kjarasamningum. Þá liggur fyrir hvað þeir kosta og þá yrðu sett fjáraukalög númer eitt og síðan þegar verður eldgos eða eitthvað slíkt yrðu menn að koma með fjáraukalög númer tvö og svo framvegis eftir því sem líður á árið. Fjáraukalög gætu verið fleiri en ein og ég vildi gjarnan að menn skoðuðu það þegar þeir fara að skoða að breyta öllu þessu kerfi.