144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:28]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Hér erum við að fara að greiða atkvæði um mál sem er mjög alvarlegt. Það er alvarlegt út af því að allir þeir einstaklingar sem núna þurfa að horfa upp á enn frekari skerðingu og lakari lífskjör fá engan undirbúningstíma. Þetta er jólagjöfin til heimilanna í landinu því þetta hljóta líka að vera heimili í landinu. Þetta er bara ömurlegt, því ég veit sjálf hvernig það er að lenda í þeirri stöðu að þurfa að fara og biðja um bætur hjá félagsmálayfirvöldum. Það þýðir á þessum tíma að maður fær jafnvel ekki neinar bætur strax. Það kemur gloppa inn á milli. Hér er verið að setja fólk í stöðu þar sem verið er að hækka matarskattinn og taka af þeim grundvallarmannréttindi. Ég skil bara ekki í þingmönnum Framsóknarflokksins að taka þátt í svona. (Forseti hringir.) Mikil má skömm ykkar vera.