144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður má ekki skilja það svo að ég vanmeti það við hann þegar hann er skemmtilegur í ræðustól, en ég varaði hins vegar við því að menn hleyptu of mikið á skáldafáki út um víðan völl og gæfu sér að eitthvað væri sagt í ræðustól sem ekki var sagt. Ég vísa því aftur til þess sem ég sagði um veiðigjaldið, að það ásamt fiskveiðistjórnarkerfinu kemur til sérstakrar umræðu í vor.

Svo ég víki nú að efni frumvarpsins sem hér er um að ræða þá fagna ég því sem hv. þingmaður sagði um lækkunina á almenna virðisaukaskattsþrepinu úr 25,5 í 24%. Ég álít að það sé með mikilvægustu atriðum frumvarpsins og held að það muni skila sér í lægri skattheimtu af almenningi til langs tíma, ég er sannfærður um að það mun hafa þau áhrif til langs tíma. Sama segi ég varðandi ummæli hans um almenna vörugjaldið, ég er sammála honum um að það er gríðarlega mikilvæg breyting þó að okkur greini á um sykurskattinn. Ég held að sá skattur sé mjög ómarkviss neyslustýring og ekki til þess fallinn að ná þeim árangri sem að er stefnt. Ég held að það sé mikil hreinsun að því að losna við hann út úr kerfinu og að það muni líka skila sér til almennings og eins varðandi einföldun á kerfinu.

Þetta eru að mínu mati stærstu liðirnir í málinu enda nær almenna þrepið, ef við tökum bara það, til yfirgnæfandi hluta neyslu almennings á vöru og þjónustu. Milli 80 og 90% af útgjöldum heimilanna eru undir efra þrepi virðisaukaskattsins, þannig ég bind vonir við að sú breyting sem þar er verið að boða muni skila sér til almennings og leiða til lægra vöruverðs almennt. Ég held að þau áhrif séu mun mikilvægari en þau (Forseti hringir.) kostnaðaráhrif sem fylgja hækkun neðra þrepsins.