144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:14]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tek undir það að það starf sem hefur verið byggt upp við Háskólann á Akureyri varðandi norðurslóðir og heimskautaréttinn er mjög mikilvægt og það þarf að verja það. Það má alls ekki taka því sem svo að ég vilji beita mér gegn því. Hins vegar getur verið snúið og varasamt að skilyrða framlagið, 20 milljónir í þetta verkefni á næsta ári, vegna þess að það getur kallað á meiri fjárframlög.

Ef það eru ekki nógu margir sem sækja um en samt á að setja 20 milljónir í þetta ákveðna verkefni þá er kannski búið að skylda skólann til þess að vera þrátt fyrir allt með þetta nám í tvö ár eða eitt ár án þess að fjármunir séu nægir. Ég veit ekki hvort ég segi þetta nógu skýrt en það eru rökin sem ég heyrði og ég trúi. Það er ekkert sem segir að af þessu 30 millj. kr. framlagi geti ekki hluti farið til norðurslóðaverkefnisins eða heimskautaréttarins. Alls ekki. En ég treysti skólayfirvöldum til að meta það og veit ekki annað en þau standi vörð um þetta nám.