144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:16]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Forgangsröðunin á þessum fjárlögum er að setja fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu á Íslandi í hættu og það að óþörfu. Já, við höfum fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu á Íslandi og við byggðum hana upp sem miklu fátækari þjóð. Á alþjóðlegum mælikvörðum mælumst við með alla þætti heilbrigðisþjónustunnar græna — ekki gula og ekki rauða, heldur græna. Við höfum fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Hvað meina ég með því að heilbrigðisþjónustuna sé verið að setja í hættu að óþörfu? Höfum við efni á fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu eftir hrun? Höfum við efni á því að byggja upp fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu eða viðhalda fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu á Íslandi? Ef við tökum bara stóru myndina er landsframleiðslan, verðmætin sem eru sköpuð á Íslandi, fjórfalt meiri en hún var fyrir 20 árum þegar við vorum að byggja upp þetta heilbrigðiskerfi. Ef við tökum inn fólksfjöldann og reiknum út verðmæti á mann og reiknum inn í verðbólguna með kaupmætti erum við samt sem áður með tvöfalt meiri kaupmátt á hvern Íslending núna en fyrir 20 árum. Já, við höfum efni á því ef forgangsraðað er í það að viðhalda fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Tökum bara nokkra liði í þessum fjárlögum sérstaklega þar sem ekki er forgangsraðað í heilbrigðiskerfið hvað varðar útgjöldin annars vegar og hins vegar þær tekjur sem eru teknar inn eða ekki teknar inn. Til að hægt sé að fjármagna fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu má til dæmis nefna að á síðasta ári komum við óvænt út í tugmilljarða króna plús vegna þess að það er verið að endurreikna í bókhaldi Seðlabankans. Það var hægt að taka vel út úr Seðlabankanum inn í ríkissjóð og síðan kom arður frá bönkunum sem ríkið á í, tugmilljarðar, gott ef þetta voru ekki hátt í 40 milljarðar samtals. Þetta hefði verið hægt að setja í langþráða uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu. Það var ekki gert. Því var ekki forgangsraðað þangað.

Ef við horfum á það sem væri hægt að gera á þessum fjárlögum eða það sem hefði verið hægt að gera í tekjuöflunarfrumvörpunum sem voru samþykkt í gær hefði verið hægt að taka meira tímabundið áfram í sérstök veiðigjöld, þ.e. veiðigjöld á hagnaðinn, það sem umfram stendur eftir að menn eru búnir að fjárfesta í greininni, reikna gjöld og tekjur. Hvers vegna eru slík veiðigjöld sanngjörn? Það heldur því enginn fram að sérstök veiðigjöld á sjávarútveginn séu ekki sanngjörn. Það mun koma fram í endurskoðuðu veiðigjaldafrumvarpi frá ríkisstjórninni að enginn er á móti því. Það er sanngjarnt vegna þess að það er verið að undanskilja alla aðra landsmenn frá því að hafa aðgang að þessari sömu auðlind. Fyrir það borga menn sérstakt gjald. Þarna hefði áfram verið hægt að taka tímabundið hærra veiðigjald eins og síðasta ríkisstjórn gerði til að byggja upp heilbrigðiskerfið. Það hefði verið hægt. Því var ekki forgangsraðað þannig.

Féð af bankaskattinum, sem var kastað loksins yfir þrotabúin og náð í út frá lögum frá 2010 sem voru með það að markmiði að ná inn í ríkissjóð fé vegna þess skaða sem ríkissjóður varð fyrir vegna hrunsins, það var eitt af markmiðunum, hefði verið hægt að setja núna í hærri gír og koma heilbrigðiskerfinu upp á yfirborðið. Það var ekki gert, það var frekar notað í kosningaloforð Framsóknarflokksins. Þetta er dæmi um forgangsröðun. Heilbrigðiskerfið er ekkert í forgangi á þessum fjárlögum.

Eru einhverjir aðrir skattar sem hefði verið hægt að innheimta, einhverjir minni skattar? Já. Stórir skattar sem ríkisstjórnin hefði getað tekið sem ég hef nefnt voru ekki nýttir, en hvað þá með litla skatta? Jú, við þingmenn úr öllum flokkum í minni hlutanum lögðum til að eðlilegur skattur yrði tekinn, sanngjarn og skilvirkur skattur, af laxveiði. Við lögðum til að ekki skyldi áfram notuð gamla holan að kalla veiðileyfi í á til að veiða lax, silung eða annað fasteignaleigu. Þetta er hola sem var búin til 1990 og þessi tillaga okkar hefði þýtt að gatinu hefði bara verið lokað. 2 milljarða kr. skattstofn þar hefði getað skilað nokkur hundruð milljónum í ríkissjóð.

Ef við horfum á hvað vantar núna í heilbrigðiskerfið eru það 3 milljarðar umfram það sem ríkisstjórnin hefur sett í það, 3 milljarðar til að veita nauðsynlega þjónustu samkvæmt öllum forstöðumönnum heilbrigðisstofnana á Íslandi, þeirra níu sem eru Landspítalinn – háskólasjúkrahús, Sjúkrahúsið á Akureyri, heilsugæslan í Reykjavík og svo heilbrigðisstofnanir víða um land. Tökum dæmi, það vantar 55 milljónir í Sjúkrahúsið á Akureyri. Það er auðvelt að fjármagna það með því einfalda pennastriki að hætta að undanskilja veiðileyfi í laxveiði og slíkt frá virðisaukaskatti, bara hætta að undanskilja það. Það er mjög einfalt, eitt pennastrik.

Menn segja: Já, við ætlum að gera þetta hvort eð er seinna o.s.frv. Það hefði verið hægt að gera það strax. Menn afþakka svona einfaldar, sanngjarnar og skilvirkar tekjuleiðir. Þarna er ekki forgangur í heilbrigðiskerfið.

Hvað meina ég þegar ég segi að forgangsröðunin í þessum fjárlögum sé að setja fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu á Íslandi í hættu og það að óþörfu? Ég er búinn að útskýra hvers vegna það er óþarfi. Það þarf ekki. Þarna vantar líka einn þátt upp á. Þegar þessi fjárlög verða samþykkt á eftir í kjölfarið á tillögum sem liggja fyrir, breytingartillögum og öllu því sem ríkisstjórnin og meiri hlutinn í þinginu hefur lagt af stað með og liggur í bókunum — þegar þau greiða atkvæði á eftir verðum við 3,6 milljarða í plús. Það verða hallalaus fjárlög. Það vantar 3 milljarða í heilbrigðiskerfið til að veita nauðsynlega þjónustu. Þetta er ekki forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Hver er hættan? Hættan er sú að við missum þessa fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu sem við höfum búið við og byggt upp sem miklu fátækari þjóð en í dag, að hún verði ekki lengur fyrsta flokks, að við missum hana niður í annan flokk. Það er klárlega ekki það sem landsmenn vilja. Landsmenn vilja forgangsraða í heilbrigðiskerfið af því að þeir sjá að heilbrigðiskerfið hefur verið fjársvelt. Það varð hrun, við vorum í bakkgír og við þurfum að gera það sem þarf, við þurfum að forgangsraða skattfé í verkefni sem eru brýn og áríðandi. Þar er örugg heilbrigðisþjónusta langkærust öllum landsmönnum óháð flokkum, óháð kjördæmi, óháð aldri, óháð kyni, óháð efnahag. Landsmenn, allir sem einn, vilja forgangsraða í heilbrigðiskerfið, vilja fyrsta flokks heilbrigðiskerfi. Þeir vilja vernda sitt fyrsta flokks heilbrigðiskerfi. En það er ekki það sem er verið að gera hér. Hér er verið að setja það í hættu. Munum við falla niður í annan flokk? Það er ekki öruggt en það er stórhætta á því. Læknar eru í verkfalli í fyrsta skipti í sögunni. Allir sem hafa fylgst með fjölmiðlum sjá að við erum að missa sérfræðingana úr landi, sérfræðingana sem komu hingað fyrir 20 árum. Þegar við vorum að byggja upp þetta heilbrigðiskerfi með helmingi minni kaupmátt á mann komu 80% þeirra til baka. Það eru 20–30 sérfræðingar sem koma á ári til Íslands aftur úr læknanámi og 66 fara, 66 á móti 20–30. Það eru rúmlega tvöfalt fleiri sem fara úr landi en koma til landsins, jafnvel þrefalt fleiri. Á næstu tíu árum munu 300 læknar í ofanálag fara á eftirlaun þannig að það eru 30 í viðbót á ári. Það geta verið hátt í 100 sérfræðingar sem fara og 20–30 sem koma aftur. Þetta er hættan. Þetta er stórhætta. Sérfræðingarnir okkar eru hryggjarstykkið í öruggri heilbrigðisþjónustu á Íslandi, þeir sem halda okkur í því að vera með fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu.

Núverandi stjórnarflokkar voru ekkert ósammála því fyrir kosningar. Það kemur alveg kýrskýrt fram í kosningaloforðum þeirra og þeir eru líklega ekkert ósammála því núna heldur — ég sé þingmenn í salnum kinka kolli — að heilbrigðisstarfsfólkið okkar sé helstu verðmætin. Mannauðurinn er helstu verðmætin. Þetta eru orðin sem báðir flokkarnir notuðu. Það þarf að forgangsraða í að bæta kjör og það þarf að koma í veg fyrir landflótta lækna. Það kemur skýrt fram hjá Framsóknarflokknum.

Um hvað sameinuðust stjórnarflokkarnir í stjórnarsáttmálanum í þessari ríkisstjórn? Um að við eigum að vinna í því að gera heilbrigðiskerfið okkar samkeppnishæft við nágrannaríkin. Þar stendur það kýrskýrt. Þessi forgangsröðun er ekki að gera sig. Þessi forgangsröðun skapar raunverulega hættu á því að fyrsta flokks heilbrigðisþjónusta á Íslandi verði ekki lengur til staðar.

Þá er spurningin: Hvað eru stjórnarflokkarnir að reyna með þessu, hvað eru þeir að gera? Eitt sem ég veit er að það er búið að skipa nýjan landlækni. Sá landlæknir kemur að utan. Mér er sagt að hann sé breytingastjórnandi, ég veit ekkert hvað er til í því, en fyrsta regla breytingastjórnunar er klárlega að stjórnandinn notar þá krísu sem er til staðar, býr hana til eða jafnvel gerir hana verri af því að krísa er nauðsynleg fyrir breytingastjórnun. Það er alveg ljóst að stjórnarflokkarnir vilja fara í ákveðnar breytingar á heilbrigðiskerfinu þannig að krísa er staða sem þeir mundu vilja í því tilliti. Það mundi gagnast þeim í að ná fram þeim markmiðum.

En þetta er áhættusamur leikur. Eftir tvö ár frá þessum degi verða þingmenn aftur að ljúka fjárlögum og fara að hugsa um kosningarnar sem verða þá vorið eftir. Þá verða þingmenn að undirbúa kosningabaráttu sína fyrir kosningar sem verða vorið 2017. Þá munum við geta fylgst með þeim alþjóðlegu stöðlum sem meta hvort hér á landi sé fyrsta flokks heilbrigðiskerfi. Það verður mjög dýrkeypt fyrir stjórnarflokkana ef þeir hafa skemmt það sem landsmönnum öllum er kærast, örugg heilbrigðisþjónusta og fyrsta flokks heilbrigðiskerfi á Íslandi.