144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veiti því athygli að í þessari umræðu hefur verið nokkuð stíf norðaustanátt í dag og er sjálfsagt að þingmenn frá þeim landshluta ræði þau mál. Ég ætla ekki að blanda mér í þau, en ég vil hins vegar nota tækifærið til að taka undir ákveðin atriði sem komu fram í máli hv. þm. Kristjáns L. Möllers. Þar vil ég fyrst og fremst deila með honum áhyggjum af stöðu samgöngumála og vegamála sérstaklega.

Í þeirri útgáfu fjárlagafrumvarpsins sem nú liggur fyrir er verið að bæta í, sérstaklega hvað varðar flugvelli, og er það vel. Ég fagna því í sjálfu sér að hv. þm. Kristján L. Möller skuli taka undir þá leið sem þar er verið að fara í þeim efnum. Ég held að það sé gott að hafa stuðning úr þeirri átt við þá aðferð sem þar er lögð til.

Þó að ég sé í meginatriðum mjög sáttur við það fjárlagafrumvarp sem liggur fyrir þá deili ég með hv. þm. Kristjáni L. Möller áhyggjum af þeim þætti sem lýtur að stöðu vegamála. Þannig hefur það auðvitað verið um nokkurra ára skeið að við höfum verið að verja of litlu fé til þess málaflokks sem hefur leitt til þess að við höfum ekki haft afl í að ráðast í þær nýframkvæmdir sem við höfum þurft á að halda, eins hefur viðhald og endurbætur á vegakerfinu setið á hakanum allt of lengi. Þó að við björgum því ekki fyrir horn núna á lokametrum þessarar fjárlagaumræðu þá er það verkefni sem við þurfum að huga að þegar kemur fram á nýtt ár.